139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig eðli máls að öll rýmkun á reglum felur í sér aukna áhættu. Ég held hins vegar að í því tilfelli sem hér um ræðir sé hún vel innan þeirra marka sem hægt er að gera kröfu til, enda hygg ég að sú einangrun sem nú er kveðið á um mundi í sjálfu sér ekki duga heldur ef um væri að ræða leynda sjúkdóma eins og hv. þingmaður nefnir. Ef dýr bera leynda sjúkdóma og eru flutt til landsins eins og heimilt er má einu gilda þó að þau séu í mánuð í einangrun suður með sjó eða norður í landi, þau væru alveg jafnhaldin þeim leynda sjúkdómi þegar þeirri einangrun lyki.

Við erum einfaldlega að takmarkaða það gildi sem í einangruninni felst þannig að dýr, sem eru undir mjög öflugu eftirliti dýralæknis og hafa gengist undir próf um að þau hafi þróað með sér móteitur og séu með reglulegar bólusetningar, þurfi ekki að fara í þá tilteknu einangrun sem nú er skylt enda held ég raunar að það sé alls ekki fullkomið hvernig að henni er staðið. Með þeim flutningi á dýrum til landsins sem er fyrir hendi og við leyfum nú þegar er auðvitað einhver hætta á því að hingað berist eitthvað en ég held þó að mesta áhættan sé í hinum ólöglega innflutningi á dýrum sem ekki er heimilt að flytja hingað og fer fram hjá öllum reglum.