139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ólöglegur innflutningur á dýrum er áhyggjuefni og gott væri ef við gætum gert betur þar en við erum að gera þó að ég viti til þess að verið sé að stöðva ýmislegt sem reynt er að koma með til landsins. Ég vil líka taka fram að ég hef ákveðinn skilning á þörfinni fyrir dýr sem fólk þarf sér til aðstoðar og slíkt en við þurfum þá að vega og meta hvort áhættan sem verið er að taka sé — nú er kannski ljótt að segja „þess virði“ því að það er erfitt að setja sig í spor þessara einstaklinga, hvort heildarhagsmunirnir séu aðrir eða stærri.

Ég orðaði það kannski ekki nógu vel varðandi leyndu sjúkdómana. Nú er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að dýr hafi í raun ákveðið vegabréf, gæludýravegabréf, sem er þekkt innan Evrópusambandsins. Það er einmitt líka þekkt að dýr, reyndar búfénaður, sem hafa verið flutt til landsins með slíkt vegabréf upp á vasann, hafi verið haldin sjúkdómi sem varð síðan landlægur hér á landi. Það er sú áhætta sem ég er svolítið að kalla eftir hvort sé þess virði að taka.

Einnig felst áhætta í allri rýmkun á reglum. Það er hægt að taka undir það hjá hv. þingmanni. Þegar hann orðar það svo að hún geti verið innan marka eða rúmast innan marka verð ég að segja að ég er afar ósammála honum um að hægt sé að draga einhver mörk í því hvar áhættan verði tekin. Ef við flytjum inn sakleysislegan hund eða kött og hann ber með sér sjúkdóm eftir að hafa labbað eða hlaupið í gegnum fjárhús einhvers staðar sem leggur nýja sjúkdóma á íslenskt sauðfé er sú áhætta ekki þess virði.