139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta með að rýmka og draga úr kröfum er auðvitað á þessu sviði nokkuð sem við höfum gengið í gegnum. Það var lengi þannig að þegar menn fluttu gæludýr sín til Íslands urðu þeir að flytja þau norður í Hrísey. Ég hygg að þar hafi kröfur um einangrun verið miklu meiri en nú er, a.m.k. þrír, gott ef ekki sex mánuðir í senn. Síðan höfum við einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið óhæfilega miklar kröfur og heimilað að fleiri stöðvar væru reknar og nær þéttbýli og heimilað að stytta þennan tíma. Síðar hafa verið heimilaðar heimasóttkvíar í einhverjum tilfellum. Auðvitað eru allar þessar rýmkanir til þess fallnar að gera þetta einfaldara og betra fyrir almenning og fela í sér lítils háttar aukna áhættu.

Með áhyggjurnar af hinum leyndu sjúkdómum árétta ég að við flytjum inn gæludýr til Íslands allan ársins hring og beri þau leynda sjúkdóma munu þeir berast til landsins alveg óháð því hvort dýrin þurfa að gista í 30 daga í einangrunarstöð því að sjúkdómurinn er væntanlega jafnmikið til staðar þegar þau labba út úr einangrunarstöðinni og ef þau kæmu til landsins án þess að þurfa að fara þangað. Ég held að það sé ekki stærsta áhyggjuefnið í þessu sambandi en það verður fróðlegt að sjá hvað kemur fram í umfjöllun nefndar sem mun auðvitað kalla eftir sjónarmiðum frá sérfróðum aðilum á þessu sviði.