139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um hið síðarnefnda er náttúrlega það að segja að vilji menn brjóta lögin geta þeir gert það. Lögin sem gilda í dag með öllum sínum hömlum eru brotin margsinnis á hverju ári með ólöglegum innflutningi dýra óháð því hvort þau hafa einhver vegabréf eða ekki. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja það upp að ég hef staðið fyrir því að rýmka lagaumgjörð hvað varðar gæludýr í landinu, ekkert sérstaklega hjálpardýr. Ég tel að á því sviði búum við við býsna afturhaldssama löggjöf sem m.a. hafi helgast af gömlu hundabanni sem lengi var í Reykjavík. Þeir sem kynnst hafa dýrahaldi í öðrum löndum vita sem er að hægt er að heimila gæludýrahald og gæludýrum miklu meira en við gerum án þess að það bitni á almannahagsmunum.

Hvaða tilgangi þjónar málið? Það þjónar þeim tilgangi að draga úr óhóflegum kostnaði borgaranna við að fara í gegnum þennan einangrunarprósess vegna þess að þegar fólk flytur t.d. heim að loknu námi eða ef það hefur starfað einhvers staðar um lengri eða skemmri tíma þá þarf það að reiða fram verulegar fjárhæðir í tengslum við þetta. Það þjónar líka þeim tilgangi að þegar fólk fer til skemmri dvalar, til að mynda fólk sem á sumarhús á Spáni svo dæmi sé tekið, geti það haft með sér gæludýr og komið aftur með þau þegar það kemur heim því til hagræðis.

Þegar dýr eru undir fullu og góðu eftirliti dýralæknis sé ég ekkert sem varnar því að við auðveldum borgurunum lífið með því að fella niður þessar miklu hömlur og heimilum einfaldlega fólki með gott og virkt dýralækniseftirlit að fara með dýrin sín á milli landa eins og leyft er í Evrópusambandinu.