139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Þarna erum við hv. þingmaður einfaldlega ósammála og Margrét Guðnadóttir, veiru- og sýklafræðingur, sem hefur tjáð sig um þetta mál er einnig ósammála hv. þingmanni. Ef hv. þingmaður er að tala um að sú sóttkví sem er til staðar í dag sé ekki nægilega góð þá kann vel að vera að herða þurfi hana eitthvað. Ég tel eðlilegt að gæludýr sem koma hingað til lands fari í gegnum mjög strangt eftirlit og sóttkví og annað því um líkt. Við eigum ekki að rýmka þessar reglur meira en orðið er enda hafa þær verið rýmkaðar töluvert á undanförnum árum eins og hv. þingmaður benti á fyrr í máli sínu. Ef hv. þingmaður vill bæta einhverjum þáttum við eins og bólusetningum og fleiru sem hann nefndi, ég þekki það ekki nægilega vel, er hægt að bæta því inn í sóttkvíarferlið. En mikilvægt er að ganga hægt fram og ráðast ekki í breytingar á þessu og leika sér ekki svona að eldinum. Það er bara þannig. Það er ástæða fyrir því að þetta hefur verið gert á þennan hátt. Við höfum verið minnt á það. Það var bara á síðasta ári sem íslenski hestastofninn fékk sjúkdóm sem kostaði tugi ef ekki hundruð milljóna. Við verðum einfaldlega að gæta okkar mjög í þessu.

Að lokum vil ég aftur þakka hv. þingmanni fyrir málið og vil hvetja hann til að koma með fleiri mál þar sem hann leggur til breytingar í átt til Evrópusambandsins þannig að Alþingi Íslendinga geti tekið sjálfstætt afstöðu til hvers og eins þáttar. Ég hvet hv. þingmann til þess því ég hygg að samsetning Alþingis sé með sama hætti og þjóðarinnar allrar að mikið af þeim málum yrði fellt í þinginu.