139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá forseta er ég 1. flutningsmaður að frumvarpi til laga sem lýtur að því að Icesave-lög nr. 1, eins og þau eru kölluð, verði felld úr gildi. Það eru nokkrir sem halda því fram að þessi aðgerð þurfi ekki að eiga sér stað vegna þess að Bretar og Hollendingar hafi nú þegar hafnað þeim samningum sem í því frumvarpi fólust. En lögin lúta breskri lögsögu, breskir dómstólar dæma í málum er af lögunum kunna að rísa og bresk lög eru annað lagakerfi, svokallað Common Law lagakerfi, sem gengur út á það, sérstaklega er samningarétturinn sterkur þar, að orð skuli standa í þeim samningum sem eru gerðir samkvæmt þeim lögum. Við erum með annað lagakerfi og er óþarft að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að endurflytja allar þær Icesave-ræður sem ég flutti á þessum langa tíma sem Icesave 1, Icesave 2 og Icesave 3 var til umræðu heldur fara lauslega yfir þau rök sem leiða það af sér að nauðsynlegt er fyrir okkur að fella þessi lög úr gildi.

Í upphafi ber þess að geta að ég var með fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í þarsíðustu viku þar sem ég spurði um álit hans á því hvort hann teldi það ekki þjóna almannahagsmunum og þjóðarhagsmunum að fella þessi lög úr gildi. Og hann taldi svo vera. Ég lít því svo á að hæstv. ráðherra sé talsmaður ríkisstjórnarinnar og var þá þegjandi samkomulag um að þetta mál fengi flýtimeðferð í gegnum þingið; svo mikil snjóhengja getur þetta verið vegna þess sem ég taldi upp áðan.

Í lögunum eru nefnilega afar mörg og íþyngjandi vanefndatilvik ef ekki er staðið við samningana og Bretar og Hollendingar geta hæglega borið fyrir sig forsendubresti ef lögin eru í gildi. Þrátt fyrir það að nú berast fréttir af því að það séu 99% í þrotabúi Landsbankans sem gangi upp í Icesave og forgangskröfur virðist svo vera að ríkisábyrgðin hafi fyrst og fremst verið sett vegna þess að Bretar og Hollendingar voru að veðja á það að neyðarlögin mundu ekki halda. Ef neyðarlögin halda ekki þá breytast þær forgangskröfur sem Icesave-reikningarnir eru yfir í almennar kröfur og þá er ansi lítið í þrotabúinu til að greiða upp í Icesave-skuldina eða Icesave-reikninginn eins og þetta er kallað.

Ég legg því ríka áherslu á það, virðulegi forseti, að þessi lög séu numin úr gildi. Núna eru mál fyrir dómstólum sem reyna á þessa réttarspurningu, hvort neyðarlögin haldi eða ekki. Úr nokkrum dómum héraðsdóms hefur útkoma verið jákvæð en Hæstiréttur á eftir að taka málið fyrir og hann hefur lokaorðið. Því er enn brýnna að við verðum búin að fella þessi lög úr gildi komi Hæstiréttur til með að snúa dómum héraðsdóms. Allur er varinn góður. Þetta snýr að almannahagsmunum. Þetta snýr að því að Bretar og Hollendingar geti ekki sótt á okkur þessa 700 milljarða sem hæstv. fjármálaráðherra var búinn að skrifa undir fyrir hönd þjóðarinnar vegna þessa máls, þetta er afar brýnt.

Við getum svo spurt okkur að því hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra lagði svo mikið á sig í þrígang að velta þessum byrðum yfir á íslenska þjóð en þeim spurningum verður ekki svarað hér. Ég ætla ekki að elta ólar við það, tíminn mun leiða það í ljós hvaða áhrif það hefur fyrir viðkomandi ráðherra. Eftir því sem á málið hefur liðið hefur tíminn unnið með okkur Íslendingum. Við framsóknarmenn stóðum fastast í fæturna og vorum trú okkur sjálfum í gegnum allar lagaafgreiðslurnar á þingi. Við mótmæltum þessu kröftuglega fyrir hönd þjóðarinnar. Og nú er komið í ljós, eins og ég sagði áðan, að þrotabú Landsbankans virðist ætla að geta staðið í skilum með þessa skuld sem átti að velta yfir á herðar íslenskra skattgreiðenda.

Nú ætla ég að fara yfir frumvarpið, með leyfi forseta. Flutningsmenn á því eru allir þingmenn Framsóknarflokksins, auk mín eru það Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Siv Friðleifsdóttir.

Í 1. gr. laganna segir:

„Lög nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., falla brott.

2. gr. er einföld: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta er frumvarp, frú forseti, sem lætur ekki mikið yfir sér en skiptir þjóðarhagsmuni miklu. Og nú ætla ég að fara lauslega yfir greinargerðina.

Þegar rætt er um lög nr. 96/2009 er að sjálfsögðu átt við Icesave 1. Greinargerðin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 96/2009 falli úr gildi. Fyrir því hafði verið gert ráð í lögum nr. 13/2011 sem synjað var staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl sl.

Lög nr. 96/2009 tóku gildi 3. september árið 2009, en með þeim var fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, að greindum skilyrðum, heimilað að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda ríkisábyrgð á lánaskuldbindingum sjóðsins sem byggðust á svokölluðum Icesave-samningum sem undirritaðir höfðu verið um mitt sama ár. Í reynd fólst í lögunum gagntilboð sem bresk og hollensk stjórnvöld reyndust síðan ekki reiðubúin að samþykkja.

Þess í stað hófust samningaviðræður aðila aftur vegna málsins sem lauk með viðaukasamningum sem undirritaðir voru 19. október 2009. Með breytingalögum nr. 1/2010, sem samþykkt voru í lok árs 2009, stóð til að laga efni laganna að lögum nr. 96/2009 að umræddum viðaukum en því hafnaði þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010.

Aftur var gengið til samninga við bresk og hollensk stjórnvöld í lok árs 2010 og að þeim undirrituðum voru lög nr. 13/2011 samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2011. Þau lög voru síðan felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

Fyrir vikið er sú staða nú fyrir hendi að lög nr. 96/2009, sem til stóð að fella brott, eru enn í fullu gildi. Með tilliti til þess sem á undan er gengið er ljóst að löngu tímabært er að fella brott umrædd lög. Enginn tilgangur er með því að þau haldi áfram gildi sínu.“

Frú forseti. Hér er um þjóðhagslega hagsmuni að ræða. Dómur hefur ekki fallið í Hæstarétti varðandi það hvort neyðarlögin haldi. Við verðum að taka af allan vafa með þessa ríkisábyrgð því að raunverulega er það svo að falli neyðarlögin hafa Bretar og Hollendingar sjálfkrafa 700 milljarða veð í íslensku þjóðinni fyrirvaralaust. Það gekk meira að segja svo langt í þessum samningum að friðhelgi ríkisins var fyrir borð borin. Hér er því um algert öryggisatriði að ræða fyrir íslenska þjóð.

Þetta mál fer væntanlega fyrir hv. fjárlaganefnd og fær þar efnislega umfjöllun. Vonandi verður staðið við það samkomulag sem gert var um að þetta fái flýtimeðferð í gegnum þingið og verði afgreitt á vorþingi.