139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði.

307. mál
[19:13]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði. Auk þeirrar sem hér stendur eru meðflutningsmenn hv. þingmenn Arndís Soffía Sigurðardóttir, Árni Þór Sigurðarson, Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þráinn Bertelsson.

Þingsályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að móta framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði og beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim stuðningi sem veittur er á Norðurlöndum, þannig að ná megi því markmiði að lífrænt vottaðar vörur nemi 15% landbúnaðarframleiðslu árið 2020.“

Hæstv. forseti. Á nokkrum undanförnum þingum, allt frá 25. löggjafarþingi, hef ég mælt ásamt fleirum fyrir þingsályktunartillögum um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Nú eru komnar reglur um aðlögun við lífrænan landbúnað umfram það sem verið hefur og því ber að fagna. Ekki var hægt að setja mikla fjármuni í aðlögunarstuðning inn í núgildandi búvörusamning en mjór er mikils vísir og ég tel mig vita að hæstv. landbúnaðarráðherra hefði viljað setja meira ef ráðrúm hefði verið til þess.

Það sem skiptir máli núna er að setja okkur markmið, setja okkur stefnu. Hvað viljum við með lífrænan landbúnað? Viljum við leyfa honum að vera hliðarbúgrein fyrir einhverja sem hafa sérstakan áhuga á greininni og eru tilbúnir til að leggja á sig bæði erfiði og kostnað samfara því að byrja í greininni og skipta úr hefðbundnum landbúnaði yfir í lífrænan? Þetta er ekki gert í einni svipan, þetta tekur nokkur ár og á norðlægum slóðum tekur það lengri tíma. Hér á landi megum við gera ráð fyrir því að eðlilegur aðlögunartími sé á milli fimm og tíu ára.

Um leið og ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa farið að tillögum nefndar sem skipuð var til að koma með tillögur um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað finnst mér mikilvægt að við tökum næsta skref og mörkum okkur þá stefnu að lífrænn landbúnaður fái meira svigrúm og pláss í næstu búvörusamningum. Það er staðreynd að þó svo að neysla á lífrænum landbúnaðarvörum sé ekki mikil í dag, það er talið að hún sé um 2% af öllum landbúnaðarvörum, er samt erfitt að halda utan um það eða fá nákvæmar upplýsingar því að í innflutningi á ferskum landbúnaðarvörum eða matvælum er ekki gerður greinarmunur á lífrænum vörum og þeim sem eru framleiddar með hefðbundnum hætti. Það þarf hreinlega að gera kannanir í verslunum til að fá einhverja hugmynd um það hvert þetta hlutfall er.

Það er augljóst að eftirspurnin eftir lífrænt ræktuðu grænmeti er meiri en íslenskur landbúnaður hefur getað staðið undir og því finnst mér það vera synd fyrir okkur sem landbúnaðarland að hafa ekki þá burði að sinna eftirspurn og helst að gera betur en það og fara í útflutning líka. Við búum við góða möguleika til ræktunar, við erum með hreint loft og hreint vatn. Það býðst ekki alls staðar á hnettinum.

Ekki hefur verið mikill áhugi hjá bændastéttinni almennt fyrir því að efla lífrænan landbúnað en ég tel að það muni breytast núna þegar ljóst er að Evrópusambandið hefur sett ákveðin markmið og ekki bara Evrópusambandið heldur setja einstök lönd sér líka markmið og vinna að því að efla hlutdeild lífræns landbúnaðar því að það er eftirspurn eftir þeirri vöru. Í heimi þar sem bæði skordýraeitur og eiturefni hafa verið notuð í landbúnaði og sums staðar í of ríkum mæli og til skaða og á öðrum stöðum þar sem mengun er orðin mikil af tilbúnum áburði er eðlilegt að horft sé á landbúnaðarframleiðsluna út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum og með hollustu vörunnar í huga og heilsu neytenda sömuleiðis, enda er aukin eftirspurn eftir slíkri vöru.

Það má segja að hér á landi muni oft ósköp litlu fyrir bændur að fá vottun sem framleiðendur í lífrænni framleiðslu og það á ekki síst við um sauðfjárbændur sem eru alveg á mörkunum og vantar hugsanlega marga hverja lítið annað en fræðslu og örvun og stuðning til að fara af stað og vinna á þeim litla mun sem er á milli þess og vera í hefðbundnum landbúnaði, sérstaklega í sauðfjárrækt þar sem munar kannski eingöngu tilbúna áburðinum, annað er í lagi.

Mér finnst mikilvægt að hæstv. landbúnaðarráðherra fái frá Alþingi þau skilaboð og þau fyrirmæli að vinna samkvæmt þessu og að við setjum okkur markmið. Ég trúi því að það muni ekki líða langur tími þar til við afgreiðum á Alþingi í framhaldi af þessari þingsályktunartillögu þau markmið sem við ætlum okkur að ná og á hvaða árabili.

Stofnuð hafa verið samtök lífrænna neytenda. Fólk hefur áhuga á að bæta aðgengi að vörum sem eru lífrænt vottaðar og fylgjast þarf með merkingum á þeim vörum til að þær standist allar kröfur. Það þarf að stuðla að rannsóknum á hollustu lífrænna landbúnaðarvara og hvaða munur er á þeim og öðrum vörum. Fjölmargar rannsóknir liggja fyrir sem sýna að þessar vörur eru margar hverjar bragðbetri og hollari og sumar hverjar betri á annan hátt, ég ætla ekki að fara frekar út í það. En það þarf markvissari rannsóknir til að leiða þetta fram svo að það sé hægt að byggja enn frekar á sterkari vísindalegum rannsóknum. Þær hafa ekki verið stundaðar mikið hér á landi en þær hafa verið stundaðar erlendis og áhugi er að aukast á frekari rannsóknum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri. Það hefði verið ánægjulegt að fá umræðu um þessa þingsályktunartillögu en tíminn leyfir það ekki. Ég óska eftir því að tillögunni verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og að hún fái þar farsæla afgreiðslu.