139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

639. mál
[19:37]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir, sá er hér talar og Birgitta Jónsdóttir.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Hámarkslaun forsvarsmanns verkalýðsfélags og hagsmunasamtaka launafólks skulu ekki vera hærri en þreföld lágmarkskjör í því verkalýðsfélagi eða hagsmunasamtökum sem hann veitir forstöðu skv. 1. mgr.“

2. gr. laganna hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skulu launakjör sem samningsbundin eru við gildistöku laga þessara og eru hærri en sem nemur þreföldum lágmarkskjörum skv. 1. mgr. 1. gr. laganna haldast út uppsagnarfrest viðkomandi forsvarsmanns. Þegar uppsagnarfrestur er liðinn skal ákvæði 1. gr. laga þessara þó vera að fullu í gildi.“

Frú forseti. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta felur í sér breytingar á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Breytingin miðar að því að lögfesta reglu um hámarkslaun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks þannig að þau geti aldrei orðið hærri en sem nemur þreföldum lágmarkskjörum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um séu lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Í ákvæði til bráðabirgða er þó kveðið á um að séu forsvarsmenn við gildistöku laganna með samningsbundin launakjör sem eru hærri en það viðmið sem sett eru í frumvarpinu haldi þeir þeim jafnlengi og lögboðinn uppsagnarfrestur þeirra gildir. Eftir þann tíma geta þeir að hámarki haft laun sem nema þreföldum lágmarkskjörum samkvæmt lögunum.

Samningsfrelsi er grundvallarregla í íslenskum rétti. Löggjafinn hefur þó talið rétt að setja samningsfrelsinu ákveðnar skorður séu rík rök þar að baki. Meðal þeirra raka sem oft er vísað til eru almannahagsmunir. Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki eru rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með frumvarpinu væru samningsfrelsi settar nokkrar skorður enda yrði ólöglegt að semja um hærri laun en sem nemur þreföldum lágmarkskjörum. Við ákvörðun þessa hámarks var þó gætt meðalhófs og ekki gengið of nærri samningsfrelsi aðila. Með því að kveða á um þreföld lágmarkskjör er enn fremur talið tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að launin séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans og ákvæðið dragi ekki úr hvata þeirra sem hæfastir eru til að sinna því.

Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra.“

Frú forseti. Ég var um árabil í trúnaðarráði verkalýðsfélags og kynntist launum og starfskjörum verkafólks, sjómanna og forsvarsmanna þeirra félaga ágætlega. Það sem okkur fannst ef til vill erfiðast að glíma við var sú langa vegalengd sem var frá hinum almenna félagsmanni til forsvarsmanna samtakanna og þau vandkvæði sem almennir félagsmenn áttu við að koma að stjórn verkalýðsfélagsins. Slík vandkvæði eru enn fyrir hendi í fjölmörgum stéttarfélögum. Því teljum við flutningsmenn frumvarpsins rétt að tryggja það með einhverjum hætti að forsvarsmenn þessara félaga geti ekki skammtað sjálfum sér eða fengið skammtað úr sínum stjórnum laun sem eru langt, langt umfram það sem eðlilegt má teljast miðað við þær starfsgreinar sem þeir veita forstöðu. Þess vegna leggjum við þetta ákvæði til, sérstaklega með það í huga að það eru félagsmennirnir sjálfir í verkalýðsfélögunum sem greiða þessu fólki launin og ákvarðanatakan að baki slíkum ákvörðunum um launakjör er mjög erfið og löng nema þau séu tryggð með einhverju hámarksþaki eins og hér er greint frá og talað um.

Vona ég að málið fái góðan framgang og fljóta afgreiðslu í þeirri nefnd sem það fer til.