139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú staða er komin upp í íslensku samfélagi að þar eru margir mengunarvaldar og byggingar og atvinnurekstur menga mun meira en gert hefur verið ráð fyrir. Fréttir berast af mikilli flúormengun í Hvalfirði þar sem hestar hafa sýkst. Við getum ímyndað okkur hvernig sú flúormengun fer með fólk. Mikil brennisteinsmengun er á Hellisheiði og ef fólk keyrir yfir heiðina má sjá þar ryðguð möstur. Við getum ímyndað okkar hvernig mengunin fer í fólk enda hef ég af þessu áhyggjur, bæði á Grundartanga og á Hellisheiði en báðir þessir mengunarstaðir eru í mikilli nálægð við mesta þéttbýlisstað landsins. Svo við tölum ekki um það sem gerðist með sorpbrennslurnar þar sem mengunin fór út í jarðveginn.

Umhverfisstofnun hefur haft vitneskju um alla þessa mengunarþætti um langa hríð án þess að beita þvingunarúrræðum eða grípa til annarra tiltækra ráða sem þeir hafa samkvæmt lögum. Ljóst er að hér er um að ræða líf og limi fólks og það er mjög alvarlegt ef eitureinkenni sjást á dýrum. Annaðhvort á að gera kröfu á þessa stóriðju um að bæta hreinsibúnað verksmiðjanna eða grípa til annarra ráða, jafnvel hreinlega að loka þeim.

Mig langar að spyrja hv. þm. Mörð Árnason, formann umhverfisnefndar en ég hygg að hann vilji hvorki loka umhverfisráðuneytinu né Umhverfisstofnun þrátt fyrir að þessar stofnanir hafi mjög brugðist íslenskri þjóð. Hvað hyggst formaður umhverfisnefndar gera varðandi þessar fréttir og staðreyndir? Hvað sér hann fyrir sér? Við þetta verður ekki unað.