139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það var 7. september sl. sem hin umtalaða endurskoðunarnefnd í sjávarútvegsmálum skilaði af sér. Í framhaldinu hefði verið hægt að leggja fram fullbúið frumvarp í góðri sátt ef pólitískur vilji hefði verið til þess af hálfu stjórnarflokkanna. Svo var ekki. Þá tók við mjög sérkennilegt tog á milli stjórnarflokkanna um þetta mál sem hefur núna staðið nánast látlaust í níu mánuði, hér um bil fullan meðgöngutíma, og niðurstaðan er síðan þau frumvörp sem við höfum séð á síðasta sólarhring. Þetta frumvarp var lagt fram korteri fyrir þinglok og ætlast er til þess að það fái síðan eðlilega umfjöllun á mjög stuttum tíma. Það er auðvitað alveg um tómt mál að tala.

Það sem þessi frumvörp fela í sér er fullkominn útúrsnúningur á niðurstöðu endurskoðunarnefndarinnar. Þetta er ekki bara skoðun mín, þetta er líka skoðun útvegsmanna stærri og minni báta. Þetta er skoðun allrar sjómannahreyfingarinnar sem sat í þessari endurskoðunarnefnd. Þetta er líka skoðun fulltrúa landverkafólks sem hefur tjáð sig um þessi mál. Það sem hér er um að ræða á lítið skylt við þá vinnu sem fór fram í endurskoðunarnefndinni, þetta er skrumskæling á því starfi.

Síðan bætist eitt við. Þegar við lesum þessi frumvörp getur þar aldeilis að líta ýmislegt. Þar birtist meðal annars umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég er ekkert endilega sammála öllu því sem þar segir en þar eru hins vegar settar fram hinar sverustu athugasemdir sem ég hef nokkru sinni séð koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp af þessum toga eða nokkurt einasta stjórnarfrumvarp sem mig rekur minni til. Þar er hreinlega látið að því liggja að um sé að ræða frumvarp sem sé í bága við stjórnarskrá Íslands.

Það er óábyrgt af ríkisstjórn og stjórnarflokkum að leggja fram frumvörp með þessum hætti þar sem athugasemdir koma úr sjálfu fjármálaráðuneytinu um þetta mál þar sem dregið er í efa að frumvarpið standist stjórnarskrána. (Forseti hringir.) Það er gjörsamlega óskiljanlegt að hæstv. fjármálaráðherra, yfirmaður fjárlagaskrifstofunnar, standi að þessu máli og sé einn af flutningsmönnunum sem ráðherra í ríkisstjórn.