139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

umhverfismengun frá fyrirtækjum -- umræða um stjórn fiskveiða -- koma hvítabjarna o.fl.

[11:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór ágætlega yfir það áðan hve víðtæk sátt hefði náðst í sáttanefndinni svokölluðu sem skilaði af sér í september á síðasta ári um framtíðarskipulag í fiskveiðistjórnarmálum. Það var auðvitað mjög jákvætt að sá árangur skyldi nást í þeirri nefnd eftir þá miklu vinnu sem menn lögðu á sig þar í heilt ár. Ég vonaðist til þess að í kjölfarið kæmi málefnalegri umræða um það hvernig við gætum hagað hér skipulagi á sjávarútvegsmálum til lengri tíma litið.

Það er því alveg með ólíkindum að horfa upp á það að ríkisstjórnarflokkarnir hafi velkst með þetta mál síðan, núna í sjö mánuði, og eru að koma með þetta fram í algjörum henglum á síðustu dögum þingsins. Það er alveg með ólíkindum og segir allt um stöðuna í þessum málum á þessu ríkisstjórnarheimili.

Hæstv. forsætisráðherra kom hér í gær með sína gömlu lummu um að Sjálfstæðisflokkurinn og LÍÚ vildu engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi, sagði að við ætluðum að standa vörð um gamla kerfið. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn og LÍÚ tóku þátt í þessari vinnu í heilt ár. Sjálfstæðisflokkurinn skrifaði upp á það að fara í þetta breytingaferli. Sjálfstæðisflokkurinn er alveg tilbúinn til að reyna að gera skynsamlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi (Gripið fram í: Hvaða …?) en hann tekur ekki þátt í þeirri vitleysu sem hér er verið að leggja á borð. (Gripið fram í.)

Þannig er staðan í þessu máli, virðulegi forseti, [Kliður í þingsal.] og það er ekki von á öðru en að það komi frammíköll frá stjórnarliðum, þetta mál brennur á þeim. Þannig er þó staðan í þessu máli að ég hef ekki heyrt einn einasta mann mæla því bót. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt það. Þeir hafa gert það hér á göngum og ekki einn einasti þeirra hefur sagst vera sáttur við málið eins og það er lagt fram. (Forseti hringir.) Þannig er það með alla hagsmunaaðila sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fá á fund hjá sér, þannig er það með hagfræðinga (Forseti hringir.) í háskólaumhverfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fá á fundi með sér (Forseti hringir.) til að fara ítarlega yfir málið, það eru allir ósáttir við þetta mál (Forseti hringir.) nema kannski hæstv. forsætisráðherra.