139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns vil ég segja þetta: Í fyrsta lagi kom það fram við 2. umr. málsins að umhverfisnefnd fékk við umfjöllun sína drög að reglugerð sem er í smíðum í umhverfisráðuneytinu um skotprófin og gerði sig ánægða með þær fyrirætlanir sem þar komu fram. Þetta verður tiltölulega einfalt. Eins og kemur fram í breytingartillögum okkar, sem þingið samþykkti við lok 2. umr., er ekki meiningin að til verði hin opinbera skotprófastofnun, heldur að Umhverfisstofnun útvisti þessu til skotfélaga og hugsanlega einstaklinga sem hafa þá reynslu og þekkingu sem til þarf.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir þessi mál sennilega betur en nokkur annar í salnum, en það er líka ágætt að hann lesi frumvörpin sem að þessu snúa. Þar kemur rækilega fram að fyrir bæði skotprófið og leiðsögumannsprófið á að taka þjónustugjald. Ekki má taka meiri gjöld fyrir þetta en nemur þeim kostnaði sem um ræðir. Að vísu var þetta tekið út um skotprófin vegna þess að það er erfitt að setja svona skilyrði um próf sem ekki eru á vegum hins opinbera. En það er augljóslega meiningin að það verði og um leiðsögumannsprófin er það. Það er há upphæð sem þingmaðurinn nefndi en leiðsögumannanámskeiðin eru rækileg og eiga að vera það og mér kemur þessi upphæð út af fyrir sig ekki á óvart.

Í þriðja lagi kom fram í nefndarálitinu og við 2. umr. að verið er að gera tilteknar einstakar breytingar af ákveðnum sökum. Villidýralögin sjálf eru í endurskoðun í ráðuneytinu á vegum hæstv. ráðherra og þegar Alþingi tekur við því verki gefst tækifæri til að fara yfir þetta allt aftur, þar á meðal ýmsa þætti sem komu fram í umfjöllun nefndarinnar. Ég tel því rétt að bíða þangað til með að fara yfir þetta ferli allt saman.

Í fjórða lagi vil ég geta þess að við erum í 3. umr. Ég veit að hv. þingmaður átti þess ekki kost vegna fjarvistar, sem ég ætla ekki að efast um að hafi verið þörf og holl fyrir þingmanninn, kjósendur hans og þingið, að vera við þá umræðu en nú erum við í 3. umr. og ég tel að þetta sé ekki það stórmál að við eigum að fara að tefja þá umræðu. Við eigum að ljúka henni og þar með málinu í bili. Ekki er mikið svigrúm til fundahalda í umhverfisnefnd um þetta mál frekar og ég verð að hryggja þingmanninn með því að ég hyggst ekki verða við bón hans um að halda þar fund. Ég tel að allar upplýsingar sem máli skipta í þessu séu komnar fram.