139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Mörð Árnason, formann nefndarinnar, hvort rædd hafi verið í nefndinni beiðni um að flytja hreindýr til Vestfjarða, sem mér skilst að hafi verið hafnað af umhverfisástæðum. Mig langar líka að spyrja hvort hann telji meiri hættu af hreindýrum á Vestfjörðum en af hreindýrum á Austfjörðum sem eflaust hefðu ekki verið flutt til landsins á sínum tíma ef við hefðum haft reglur um umhverfismat og annað slíkt, það hefði örugglega stangast á við eitthvert umhverfismat ef það hefði verið skoðað á sínum tíma.

Við erum komin í það skrýtna stöðu að nú er verið að dásama og setja upp heilmiklar reglur um að veiða hreindýr á Austfjörðum, hreindýr sem voru flutt þangað á sínum tíma en hefðu aldrei verið flutt þangað ef núgildandi reglur hefðu verið fyrir hendi. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið til tals að flytja hreindýr til Vestfjarða og skapa þar líka möguleika á veiðum og ríkari náttúru.

Ég vil síðan spyrja um allar þessar reglur. Þarna er verið að setja upp óskaplega mikið batterí og í fyrsta lagi er lagasetningin klúður. Það er verið að bæta svo miklu inn í. Í staðinn fyrir 9. mgr. 14. gr. koma sex nýjar málsgreinar, þessi 9. gr. er orðin eins og sögubók í staðinn fyrir að skipta þessu upp rökfræðilega.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað það að gera þetta eitthvað mildara og hvort þessar stífu reglur séu ekki orðnar þannig að það sé eiginlega orðið erfitt að stunda veiðar. Það leiðir hugann að því að sumir hafa sagt að landið sé ekki fyrir íbúa þess af því að búið sé að loka því af ýmsum ástæðum fyrir hinum og þessum, að það séu einhverjir gæslumenn umhverfisráðuneytisins sem passi það að landsmenn geti ekki notið landsins.