139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki einkamál mitt eða hv. þm. Marðar Árnasonar. Það er skylda okkar og ég þarf ekkert að fara yfir það með hv. þingmanni að við förum vel yfir mál eins samviskusamlega og við getum. Reglugerðin er stór hluti af þessu. Ég held að það væri gott og mjög hollt ef hv. þingmaður mundi upplýsa hvaða verðhugmyndir væru í gangi varðandi skotpróf. Ég er ekki að biðja um að það sé upp á hverja krónu en menn hafi svona nokkra hugmynd um það. Ef við sæjum að framkvæmdin yrði kannski allt öðruvísi þá hefði verið gott að umræðan hefði farið fram og menn sæju í það minnsta hver viljinn væri og fá þær upplýsingar sem hv. umhverfisnefnd hefur fengið. Ég er aðeins að biðja um að það verði upplýst í þingsalnum fyrir þing og þjóð. Það lægi þá fyrir ef það er ekki í samræmi við það sem lagt er upp með í hv. umhverfisnefnd.

Ég vona að þessar áhyggjur séu fullkomlega óþarfar. Ég fór yfir það í máli mínu að ýmislegt hefur komið upp og nokkuð sem við erum að ræða þessa dagana, og það hafa komið upp mál sem ég veit ekki til að við höfum haft sérstakar áhyggjur af, hvorki í hv. þingnefnd né í þingsal.

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar — það kemur mér svolítið á óvart því að ég veit að hann getur verið lipur í samstarfi ef hv. þingmaður vill og ég hef reynslu af því sjálfur. Ég var þess vegna í mestu vinsemd að leita svara og það hefði kannski flýtt þingstörfum ef hann hefði tekið undir það að fara aðeins yfir þetta í þingnefndinni, þá þyrftum við ekki að ræða þetta jafnnáið í þingsalnum ef það er eitthvað sem hv. þingmanni er á móti skapi. En ég spyr hv. þingmann aftur: Voru einhverjar verðhugmyndir kynntar fyrir nefndinni?