139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef ekki gaman af því að standa í umræðum af þessu tagi en ég verð að segja að samkvæmt þingsköpum og hefð í þinginu eru þrjár umræður um mál. 1. umr. er ætluð til tiltekinna hluta, 2. umr. er líka ætluð til tiltekinna hluta og hún er einmitt ætluð til þeirra hluta sem hér er verið að spyrja eftir, til að fara ofan í einstaka liði í frumvörpum til að fjalla um einstaka þætti þeirra. Forseti. Ég hvet þingmenn til að kynna sér það í þingsköpum.

Ég sagði áðan að ég hefði haft fullan skilning á því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er sá maður, ég endurtek það, sem líklega hefur mest vit á hreindýraveiðum af okkur sem sitjum á þingi, gat ekki verið við 2. umr. málsins. En það er ekki mér að kenna, forseti, að þingmaðurinn gat ekki verið við 2. umr. málsins. Málið var lagt fram í 2. umr. með stuðningi allra umhverfisnefndarmanna. Mig minnir að tveir þeirra hafi gert fyrirvara sem ekki komu fram við umræðuna. 2. umr. fór þannig fram að formaður nefndarinnar, sem er ég sjálfur, talaði á grunni nefndarálitsins og síðan komu andsvör frá þingmanni Norðausturkjördæmis, hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, og ekki voru fleiri athugasemdir gerðar við frumvarpið þannig að ég átti ekki von á því að hér yrði löng umræða um það. Ég tók þess vegna ekki með mér þau gögn sem hér er m.a. um spurt, en ég get fullyrt hv. þingmann um að allir nefndarmenn fengu þessi gögn, drög að reglugerð. Þeir töldu að þau drög væru ásættanleg, þetta væri einfalt próf. Það eru ekki nefndar upphæðir og það er m.a. vegna þess að að hvatningu okkar er hugmyndin sú að þessum skotprófum verði útvistað og af því að ég veit að þingmaðurinn hefur vit á markaðsmálum þá er þetta auðvitað ekki þannig að Umhverfisstofnun ætli að ákveða það fyrir fram hvaða gjald verður tekið fyrir það en það verður hóflegt og það kemur fram í nefndarálitinu að það verði hóflegt.