139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil gera örstutta grein fyrir sjónarmiðum varðandi þá umræðu sem á sér stað núna. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, formanni umhverfisnefndar, að umhverfisnefnd stóð öll að nefndaráliti því sem lagt var fram við 2. umr. Það er líka rétt að þeir þættir sem hér hafa verið til umræðu voru nokkuð ræddir í nefndinni.

Ég játa það sem umhverfisnefndarmaður að ég taldi að þarna væri þannig frá gengið að þetta kerfi ætti að geta gengið upp, þ.e. lagaramminn sem slíkur væri fullnægjandi og ætti að gefa tilefni til þess að hægt yrði að framkvæma þessi mál með viðunandi hætti.

Ég held að þær athugasemdir sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom fram með séu engu að síður alveg málefnalegar og eigi erindi inn í umræðuna. Það er álitamál að hve miklu leyti það kallar á breytingar á lagatextanum sem slíkum en athugasemdirnar engu að síður og ábendingarnar sem fram hafa komið eru málefnalegar. Ég mundi styðja það að við tækjum eins og einn fund um þetta í umhverfisnefnd ef um það næðist samkomulag. Við skulum hafa það í huga að gert er ráð fyrir að jafnaði að nefndarstörfum sé lokið þegar kemur í 3. umr. máls, en sá möguleiki er engu að síður fyrir hendi að kalla mál til nefndar þrátt fyrir að umræður standi yfir. Í ljósi þess að fram hafa komið ákveðnar athugasemdir sem við gætum tekið fyrir á fundi og reynt að fullvissa okkur um, hugsanlega gert betri grein fyrir í framhaldsnefndaráliti eða eitthvað þess háttar, þá finnst mér sú beiðni hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ekki tilefnislaus og fullkomlega málefnaleg í ljósi þessa.

Við verðum að hafa í huga að þegar mál eru tekin fyrir í þremur umræðum er gert ráð fyrir einhverju meginfyrirkomulagi en umræðurnar eru þrjár í þinginu, m.a. til að gefa mönnum kost á ekki bara einu sinni og raunar ekki bara tvisvar heldur þrisvar að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum þannig að lagafrumvörp verði sem best úr garði gerð.