139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:43]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag ræðum við frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið í ræðustól á undan mér. Ég fagna framlagningu frumvarpsins og þeirri samstöðu sem ríkir um það.

Í umsögn um frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að festa í lög ákvæði um stöðu íslenskrar tungu og mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfi og aðgengi að henni. Þá er frumvarpinu einnig ætlað að skýra stöðu íslensks táknmáls, m.a. sem fyrsta máls heyrnarlausra, og að það verði gert jafnrétthátt íslensku í samskiptum manna í millum.“

Þetta eru mjög mikilvæg og góð markmið og í ljósi þess sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum í ræðu á undan mér er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir að við þurfum að hafa fyrir því að halda í tungumálið. Við þurfum að hafa fyrir því að halda tungumáli okkar lifandi. Við þurfum að vera öflug í nýyrðasmíði. Gott dæmi um frábært nýyrði er tölva. Nánast enginn notar orðið „computer“. En okkur hefur mistekist í öðru og af því að komið var inn á leik og annað held ég að það væri algert kjörverkefni fyrir menntamálaráðuneytið að halda nýyrðasamkeppni barna í skólum, láta börn búa til ný orð. Börn eru ofboðslega fljót að tileinka sér ensk orð yfir nýja hluti og það væri tilvalið, sem hluti af leik og eflingu á íslensku máli, að láta þau finna upp ný orð. Ég veit að við erum með mjög færa einstaklinga í að smíða nýyrði en börn eru ofsalega fær og frjó og þau koma til með að bera upp íslenskuna, þau koma til með að nota málið og láta það lifa áfram.

Mig langar að víkja að 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að íslenskt táknmál njóti opinberrar viðurkenningar sem mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufdumbra Íslendinga. Þetta er gífurlega mikilvæg grein og þetta hefur verið baráttumál lengi. Til að undirstrika mikilvægi greinarinnar langar mig, með leyfi forseta, að fá að lesa hana. Hún hljóðar svo:

„Íslenskt táknmál.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.

Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst.“

Þessari grein frumvarpsins ber að fagna sérstaklega.

Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og fleiri hv. þingmönnum sem talað hafa hér, að orðum þurfa að fylgja athafnir. Ég held að ríkur vilji sé hjá öllum í þessum sal til að láta athafnir fylgja þeim orðum sem við höfum sett í lagatexta.

Ég vil þakka fyrir mjög gott samstarf þann tíma sem ég var í hv. menntamálanefnd og ætla að leyfa mér að þakka ráðherra sérstaklega fyrir að hafa komið fram með þetta frumvarp og þá góðu vinnu og samstöðu sem var í nefndinni. Við ræddum marga þætti frumvarpsins, eins og fram hefur komið í máli hv. annarra þingmanna, til dæmis stærðina á Íslenskri málnefnd, hvort hún væri of stór og starfhæf. En við náðum þessari niðurstöðu, ég er sátt við nefndarálitið og ég er ánægð, en ég veit að eftir er að taka fyrir ákveðna hluti í sérlögum og ég vona að sú vinna verði jafnvönduð og sú sem hér var unnin.

Mig langar að lokum að gera orð Einars Ben. að mínum, með leyfi forseta, „… að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu.“