139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp í lokin til að þakka fyrir afar góða og málefnalega umræðu um þetta mikilvæga mál. Hér hafa verið reifuð sjónarmið sem ég get tekið undir og vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, Írisar Róbertsdóttur og fleiri um að mikilvægt sé að orðum fylgi athafnir. Ég tel að einörð afstaða allra nefndarmanna í menntamálanefnd sé að þó að hér sé sannarlega stigið mikilvægt og táknrænt skref í þá átt að lögfesta stöðu íslenskunnar sem þjóðtungu okkar allra og ekki síður stöðu íslenska táknmálsins, er verkefninu ekki lokið. Þessu þarf að fylgja eftir með mjög ákveðnum hætti í sérlögum eins og ég rakti í framsöguerindi mínu. Reyndar er ein forsenda þess að við getum á annað borð afgreitt þetta mál núna að mínu mati sú að við höfum fengið fullvissu fyrir því að vinna við löggjöf sem fjallar um umbætur fyrir þá hópa sem þurfa að treysta á íslenska táknmálið til tjáningar og samskipta er mjög langt komin og hillir undir að við sjáum tillögur þess efnis á allra næstu mánuðum. Sömuleiðis er verið að leggja lokahönd á heildarlöggjöf um málefni innflytjenda.

Ég vil geta þess í ljósi orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur að hún gerir ekki kröfu um að málið verði tekið inn til nefndar að nýju milli 2. og 3. umr., að nefndin mun fylgja því fast eftir að ákvæði um þjónustuþáttinn í sérlögum komi mjög fljótlega inn í þingið og mun standa þá vakt af myndarskap, trúi ég.

Ég vil sömuleiðis þakka fyrir þær ágætu hugmyndir sem komu fram í umræðunni, t.d. frá hv. þm. Írisi Róbertsdóttur um að nýta nemendur í grunnskólunum í nýsköpun í þágu íslenskrar tungu. Hugmynd um nýyrðasamkeppni barna er prýðileg og sjálfsagt að koma henni til skila til menntamálayfirvalda og kennarastéttarinnar í þessu góða landi okkar. Reyndar eigum við að opna enn frekar dyrnar fyrir hvers konar nýsköpun í skólakerfinu og ekki síst í grunnskólunum. Þar er mikill efniviður og mikill áhugi á því að hugsa hlutina upp á nýtt og ég held að við getum ekki ofmetið áhrifin sem það hefði að verja meiri tíma í stundaskrám í grunnskólum í slíkar greinar en gert hefur verið.

Að lokum vil ég taka undir þakkir og heillaóskir til hæstv. menntamálaráðherra fyrir þá framsýni og djörfung sem kemur fram í því að málið er ekki einungis lagt fram heldur er eitt af áherslumálunum í málefnaskrá menntamálaráðuneytisins. Ég tel að hv. menntamálanefnd hafi tekið þeirri áskorun af metnaði að vinna málið vel og skila því tímanlega. Ég ítreka að við lítum á þetta sem mikilvægan áfanga á langri leið og munum fylgja því fast eftir að þetta skili sér í löngu tímabærum úrbótum fyrir þá hópa heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og blindra sem lengi hafa barist fyrir því að þessi sjálfsögðu mannréttindi yrðu viðurkennd í lögum.