139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um afar mikilvægt mál, frumvarp sem markar tímamót í sögu okkar. Við erum að lögfesta í fyrsta sinn, ef þetta frumvarp verður að lögum, íslensku sem þjóðtungu landsmanna og hins vegar íslenskt táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og þeirra sem þurfa á því að halda til tjáningar og samskipta.

Hv. menntamálanefnd hefur gert á frumvarpinu nokkrar breytingar, þar á meðal tillögur um að nánustu aðstandendur viðkomandi verði sömuleiðis skilgreindir sem aðilar sem hafi sama rétt til að læra og nota íslenskt táknmál. Við gerum tillögu um að Samband íslenskra sveitarfélaga fái fulltrúa í Íslenska málnefnd og nefnd um íslenskt táknmál til að tryggja aðkomu þess mikilvæga stjórnsýslustigs.

Ég vil að lokum þakka hv. menntamálanefnd fyrir afar góða og vandaða vinnu (Forseti hringir.) og mikla samstöðu um að afgreiða þetta mál.