139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki svo sem ekki þetta frumvarp út í hörgul en það er örugglega margt í því til bóta eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Ég vek hins vegar athygli á að þegar maður rennir í gegnum frumvarpið tekur maður eftir fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að öllu framansögðu má því gera ráð fyrir að frumvarpið kunni leiða til 1.250 millj. kr. útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári en því til viðbótar mun 100 millj. kr. kostnaður vegna breytinga á heildartíma bótaréttar í tengslum við vinnumarkaðsúrræði dreifast á næstu 2–3 ár. “

Síðan segir að kostnaður muni aukast varanlega upp á 500–700 millj. kr. Og í lokin er sagt:

„Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum þar sem settur er bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild næstu tvö árin.“

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig er gert ráð fyrir að fjármagna þessar breytingar sem virðast kalla á umtalsverð útgjöld. Verður það tekið annars staðar af eða verður farið í aukna gjald- eða skattheimtu í tengslum við þetta? Ég held að væri upplýsandi að heyra það.