139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:26]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þannig með vinnutengdu úrræðin að þau færast, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, inn í ríkisreikninginn, þ.e. þar kemur til útgjalda, jafnvel þótt það sé síðan greitt af tryggingagjaldi og í rauninni borgað innan sjóðsins og af þeim heimildum sem þar eru. Þar er ákveðin stjórn sem einmitt hefur með þann hluta að gera og er á bak við þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram. Þó hefur verið ágreiningur um hversu lengi hlutaatvinnuleysisbætur eiga að vera en ákveðið hér að gera tillögu um að þær verði framlengdar út árið og síðan reynt að endurskoða það. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst þau að þarna er nánast um eitt besta virkniúrræðið fyrir viðkomandi einstakling að ræða. Það sem vantar í þessar kostnaðartölur er, sem er auðvitað útilokað fyrir fjármálaráðuneytið í sjálfu sér að reikna, að ef þessir 1.200 aðilar misstu hlutaatvinnuleysisbæturnar mun hluti af þeim fara beint yfir á fullar atvinnuleysisbætur. Hluti mun missa tekjur, þ.e. hlutaatvinnuleysisbæturnar, og það kemur á móti hvað varðar þær tölur. Langstærsti hlutinn af frumvarpinu er einmitt þetta ákvæði.

Síðan reiknar fjármálaráðuneytið, sem í sjálfu sér er eðlilegt en var inni í tölunni sem ég nefndi áðan í máli sem við vorum að afgreiða, þ.e. desemberuppbót sem hefur ekki verið greidd á atvinnuleysisbætur undanfarin ár var greidd síðastliðinn desember, um þriðjungur af atvinnuleysisbótum mánaðarins eða um 48 þús. kr. á mánuði. Gerð er tillaga um að það verði heimilt í lögunum að veita þessa uppbót. Það er ekki tekin endanleg ákvörðun um það hér en ég vænti þess að það verði að vísu gert, þá er það líka inni í þessari tölu. Þetta eru auðvitað viðbótarútgjöld hjá Vinnumálastofnun undir þeim lið sem borgast af tryggingagjöldunum til Atvinnuleysistryggingasjóðs.