139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar eins og hæstv. ráðherra fór yfir. Það er verið að bæta hag þeirra sem eru atvinnulausir en markmið okkar allra hlýtur að vera það að fólk verði atvinnulaust í sem allra skemmstan tíma. Í umsögn með frumvarpinu kemur fram að þetta leiði til útgjaldaaukningar.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég átta mig ekki alveg á seinna andsvari hæstv. ráðherra því að þetta er fjármagnað ásamt Ábyrgðasjóði launa og Fæðingarorlofssjóði með tryggingagjaldinu. Það á að lækka tryggingagjaldið. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvernig sú lækkun og þessi útgjaldaaukning nær að brúa þetta bil en ráðherra hefur auðvitað tækifæri til að fara betur yfir það ef hann hefur áhuga á, svo og hv. félags- og tryggingamálanefnd. Ég held að vísu það væri ekki slæmt ef hægt væri að fá skýrari eða betri útskýringar á því hvernig það mál liggur og hvaðan peningarnir eiga að koma. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að farið sé vel yfir málið í heild sinni. Þetta hangir allt saman.

Það er ömurlegt þegar fólk lendir í því að missa atvinnu. Það er því miður allt of mikið um það. Atvinnuleysi hefur að vísu ekki aukist jafnmikið og spár gáfu til kynna, (Gripið fram í.) ekki síst vegna þess að fólk hefur farið úr landi. Fólk hefur í stað þess að vera atvinnulaust hérna heima flutt til annarra landa til lengri eða skemmri tíma. Það er auðvitað mjög slæmt fyrir okkur að missa fólk en hins vegar mjög skiljanlegt að fólk flytji því að enginn vill vera atvinnulaus. Stærsta einstaka málið er að halda hér uppi atvinnustigi. Við höfum gagnrýnt hæstv. ríkisstjórn fyrir atvinnustefnu hennar. Það er ekki nokkur leið að halda því fram að hér hafi menn sett í forgang að halda atvinnustigi uppi, því miður. Má nefna mörg dæmi þar um. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um það en í fréttum um daginn var það svið sem stjórnvöld komu hreinlega í veg fyrir að heilbrigðisstarfsmenn fengju vinnu við með því að stoppa útleigu skurðstofa og aðstöðu sem eru ekki nýttar eða lítið nýttar.

Hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson kom hins vegar með annan tón inn í ráðuneyti heilbrigðismála þegar hann tók við. Það hefur lítið frést af því. Það væri fróðlegt að heyra hvernig það mál stendur. Um er að ræða atvinnusköpun sem ekki skilar sér bara til þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem fá störfin heldur hjálpar starfsemin til við að fjármagna þetta mál því að greitt er tryggingagjald af öllum störfum í landinu eða af launum allra launþega sem fer í ríkissjóð og fjármagnar m.a. Ábyrgðasjóð launa, Fæðingarorlofssjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð. Orsakasamhengi getur því ekki verið skýrara.

Ég ætla engum annað en að vilja halda uppi atvinnu þannig að það væri fróðlegt að heyra ef hæstv. ráðherra hefur fregnir af því hvernig þau mál standa. Eftir því sem ég best veit var auglýst eftir tilboðum í leigu á skurðstofum fyrir nokkuð löngu síðan. Það væri held ég gott og fróðlegt að heyra hvernig staðan væri á því máli.

Atvinnuleysi er staðreynd. Það allra versta sem getur gerst er að fólk verði langdvölum atvinnulaust. Ég styð allt það sem er gert til að hjálpa fólki til að koma inn á vinnumarkaðinn aftur. Best er auðvitað að skapa aðstæður fyrir atvinnusköpun en við höfum ekki verið nógu vel vakandi fyrir langtímaatvinnuleysi, sérstaklega í hinu svokallaða góðæri því að atvinnuleysi var til staðar þó svo að hlutfallið væri ekki hátt. Ég hef verið mikill áhugamaður um úrræði atvinnurekenda og samtaka launafólks til að koma til móts við þann vanda. Það er nokkuð sem hæstv. ráðherra minntist á í andsvari sínu og ég er honum hjartanlega sammála um.

Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins betur yfir fjárhagsþáttinn og í leiðinni þau atvinnumál sem snúa beint að hans ráðuneyti væri mjög fróðlegt að heyra það, og vísa ég þá í útleigu á þessum skurðstofum. Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um þetta tvennt.