139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að fara í ræðu svo ég hefði tíma til að svara því sem hér var borið fram og lengri tíma en í stuttu andsvari.

Fyrst langar mig aðeins að skýra betur út hvaða breytingar verða varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum frá 5. maí er kafli undir III. kafla, Starfsskilyrði atvinnulífsins, sem heitir Tryggingagjald og atvinnutryggingagjald þar sem m.a. er fjallað um að sameiginlegur skilningur aðila sé að lækka eigi atvinnutryggingagjaldið, en samkomulag er um að meta stöðuna í haust til að ákvarða hversu mikið eigi að lækka það. Í því plaggi kemur fram — ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

„Áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum gerir ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs batni í takt við lækkun útgjalda vegna atvinnuleysis. Lögum samkvæmt skal atvinnutryggingagjald mæta útgjöldum til atvinnuleysisbóta. Gjaldið var hækkað árið 2009 úr 0,65% í 3,81% vegna horfa um atvinnuleysi 2010, en það reyndist minna. Tekjuþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs var því ofáætluð og stefnir nú í að innheimtar markaðar tekjur nemi um 6,5 milljörðum kr. umfram áætluð gjöld á þessu ári samkvæmt fjárlögum.

Horfa verður til þess við ákvörðun atvinnutryggingagjaldsins að veruleg óvissa ríkir um þróun atvinnuleysis á næstu árum. Gangi fyrirliggjandi spár um lækkun atvinnuleysis á samningstímanum eftir myndast svigrúm til þess að lækka atvinnutryggingagjaldið. Til lengri tíma litið er mikilvægt að jafnvægi verði í afkomu sjóðsins og staða hans verði slík að hann geti mætt sveiflum í útgjöldum. Atvinnuleysistryggingasjóður áætlar að eigið fé hans hafi verið 5,3 milljarðar kr. í árslok 2010.“

Þetta skýrir sem sagt það að sjóðurinn hefur safnað fé. Það er sameiginlegur skilningur beggja aðila eins og lagt var upp með. Þess vegna lögðu kannski atvinnurekendur áherslu á að fara þessa leið þegar var verið að ræða um hvernig haga bæri skattlagningu af því að gjaldið mundi þá lækka í framhaldinu með minnkandi atvinnuleysi. Gert er ráð fyrir því, svo að ég leyfi mér að lesa örlítið áfram, með leyfi forseta:

„Atvinnutryggingagjald mun lækka frá ársbyrjun 2012 þannig að tekjur og gjöld sjóðsins verði í jafnvægi á því ári. Breyting á gjaldinu verður lögfest á haustþingi þegar fyrir liggja traustari spár um atvinnuleysi.“

Svo eru tekin nokkur dæmi um að ef atvinnuleysi verður þetta muni það lækka svo og svo mikið o.s.frv.

Það sem ég var að reyna að skýra út í stuttu andsvari áðan vegna þess að halli er á öðrum sjóðum sem sækja í sama gjaldstofn þá segir í eftirfarandi kafla, með leyfi forseta:

„Samhliða lækkun á atvinnutryggingagjaldi verða eftirtaldar breytingar gerðar á almenna tryggingagjaldinu“ — sem er annar hluti af sama gjaldstofni.

Þar er í fyrsta lagi a-liðurinn: Markaðar tekjur Fæðingarorlofssjóðs hækka og verða 1,28% af tekjustofni, sem er hækkun upp á 0,2 prósentustig. Það er vegna þess að það er halli á Fæðingarorlofssjóði, þ.e. verið er að greiða úr honum umfram það sem kemur inn í hann.

Í öðru lagi er reiknað með því að þetta sé líka til að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs vegna m.a. aukinna útgjalda almannatrygginga. Tryggingagjaldið verður hækkað sem svarar um 0,25% sem ætlað er að skila ríkissjóði 2 milljörðum kr. Líka er sameiginlegur skilningur um þetta.

Í þriðja lagi: Tekjur Ábyrgðasjóðs launa eru reiknaðar sem hlutfall af tryggingagjaldsstofni en eru ekki hluti af tryggingagjaldinu. Er reiknað með að þessi ábyrgðasjóður muni hljóta 0,05% hækkun þannig að hann standi undir greiðslum vegna gjaldþrota og annarra þátta sem fylgja Ábyrgðasjóði launa.

Þarna er því skýringin á hvernig þetta er gert. Þetta er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er að sjálfsögðu unnin með aðilum atvinnulífsins um hvernig við eigi að bregðast. Það er auðvitað ýmislegt fleira hér. Ég ætla ekki að eyða tíma í að fara yfir það frekar.

Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að eitt almikilvægasta velferðarmálið, þ.e. það mál sem skiptir mestu fyrir velferð hér á landi, er atvinna. Ég held að allir séu sammála um það. Það sem menn geta togast á um er með hvaða hætti hún er sett í gang og að hve miklu leyti sú atvinna byggir á raunverðmætum þannig að við séum ekki að búa til nýja bólu eða stofna til frekari útgjalda í framhaldinu. Líka er gríðarlega mikilvægt að aðlaga ríkissjóð vegna þess að ég held því fram að þegar við tókum við þessu á sínum tíma og stóðum saman á bak við ríkisstjórnina árið 2008, og menn verða að átta sig á því, þá varð nánast á einum degi annars vegar 20% fall af tekjum ríkisins sem komu mikið til frá fjármálalífinu og hins vegar jukust útgjöld vegna vaxta. Nánast 30–40% af tekjum ríkissjóðs fara í einu vetfangi út um gluggann. Það þýðir að þrátt fyrir gríðarlega mikla aðhaldssemi og mikinn árangur tapar ríkissjóður á dag eða halli hans á dag á síðastliðnu ári er á milli 200 og 250 millj. kr. Ef við stöndumst fjárlög í ár, 2011, þ.e. við förum ekki fram úr fjárlögum, þá erum við með halla upp á 100 millj. kr. á dag. Þannig er staðan.

Það er gríðarlega mikilvægt, eins og ég hef alls staðar sagt þar sem ég hef fjallað um þessi mál, að okkur takist að breyta þeim vaxtakostnaði sem við greiðum nú yfir í velferð, að okkur takist að lækka kostnaðinn sem fer í fjármagn með því að borga niður skuldir til að hann geti farið í velferðarmál. Auðvitað er fín lína hversu hratt þetta er gert. Í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lá fyrir nákvæm áætlun um það hvernig við ætluðum að ná jöfnuði, fyrst frumjöfnuði, þ.e. að við ættum fyrir útgjöldum, og síðan heildarjöfnuði með því að eiga fyrir vaxtagreiðslum og niðurgreiðslum á lánum til viðbótar. Þegar menn fara núna í gegnum kjarasamningana má búast við að þetta tefjist eitthvað því að með því er verið að gefa ákveðna innspýtingu í kerfið til að örva hagkerfið. Ef vel tekst til og kjarasamningar byggja á því náum við líka að minnka atvinnuleysið.

Það er hægt að vega og meta þegar farið er í niðurskurð hvað er skynsamlegt. Ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt og hef verið talsmaður þess að við horfumst í augu við að við þurfum að fara í gegnum ríkiskerfið í heild og meta hvað er nauðsynlegt og hvað við komumst af með og hvað skynsamlegt er að gera, líka vegna þess að veruleg aukning hefur orðið í opinbera kerfinu á undanförnum árum. Það er ánægjulegt að sjá þrátt fyrir allt að staðan eins og hún er núna eftir þetta mikinn niðurskurð og hagræðingu er sú að við förum ekki niður fyrir þá þjónustu eða mannafla í nánast flestum greinum í heilbrigðiskerfinu, af því að það var nefnt, sem var á árunum 2004, 2005 og 2006. Ef við tökum Landspítalann sem dæmi, sem hefur náð gríðarlega miklum árangri á skömmum tíma, sýndist mér á ársfundi Landspítalans að mannaflinn hefði aukist árin 2008 og 2009. Hann er kominn aftur niður í það sem var 2007 eða svipaður því.

Auðvitað verðum við að horfast í augu við fjölgun í landinu, breytingar sem hafa orðið á samsetningu, tilfærslur í kerfinu o.s.frv. Allt þarf þetta að meta vandlega og horfa líka, eins og hér kom fram, til nýrra tækifæra.

Sérstaklega var spurt um skurðstofurnar á Suðurnesjunum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að ég hefði sagt strax og þetta kom upp að umræður hefðu verið um að setja af stað starfsemi á vegum Kadeco í gamla spítalanum á Keflavíkurflugvelli. Í rauninni var ekkert sem stoppaði það, við skoðuðum það á sínum tíma í fjárlaganefnd. Félagið hefur heimild til að skuldbinda sig í dótturfélagi fyrir þeirri byggingu. Þar var talað um fjárfestingu allt að milljarði. Það hafa engin inngrip orðið í þá framkvæmd af hálfu stjórnvalda að ég best veit en ég þekki aftur á móti ekki stöðuna á því máli. Ég veit þó að þeir aðilar sem horfðu til þess hafa líka horft til nýju skurðstofanna á Heilsustofnuninni á Suðurnesjum. Þegar eftir því var leitað bað ég strax viðkomandi framkvæmdastýru að fara í þá vinnu, sækja um og láta málið fara í gegnum kerfið þannig að þetta yrði heimilt. Það hefur síðan verið í vinnslu í kerfinu. Heilbrigðisráðuneytið, sem er velferðarráðuneyti núna, skoðaði það og síðan stjórnsýslan að öðru leyti og fjármálaráðuneytið. Það eru ýmis ljón í veginum, þó að þau þurfi kannski ekki að kallast svo, en það þarf að vanda sig vegna þess að verið er að taka fyrir afmarkaðan hluta kerfisins og taka við sjúklingum utan frá. Áfram verður sótt inn á svið myndgreininga og rannsókna og annars slíks. Það þarf að tryggja hvar mörkin liggja.

Afgreiðslan á sumu af þessu hefur eins og stundum vill verða tekið lengri tíma en ég hefði viljað en eftir sem áður hefur hvergi verið sett fyrirstaða í að halda málinu áfram, svo að það sé sagt. Menn verða bara að skoða alla hugsanlegu þætti; sýkingarhættu, hvernig menn bregðast við henni, hver borgar tryggingarnar, hver ber kostnaðinn og allt það. Það þarf að vanda sig af því að þetta er fyrsta verkefnið þar sem slíku er blandað inn í stofnun sem er ríkisstofnun. Það hefur hvergi komið til mín neitt sem hefur stoppað þetta mál. Ég hef gefið því eðlilegan framgang og bíð eftir að það komi til mín til endanlegrar afgreiðslu í samráði við þá framkvæmdastýru sem þar er, svo að ég svari því.

Þarna eru ákveðin tækifæri. Á sama tíma vitum við að það eru ákveðnar ógnanir í heilbrigðiskerfinu. Það veit hv. þingmaður jafn vel og ég, hafandi verið í sömu stöðu. Við höfum misst heilbrigðisfólk úr landi eins og hér hefur verið sagt og það er ákveðin ógn við það hvernig gengisskráningin og kjörin eru. Fólk hefur sérstaklega farið til landa næst okkur, einkum Noregs, og oft sótt í hlutastörf, tekið eina viku af fjórum. Við þurfum að vanda okkur í endurreisninni en á sama tíma glímum við við að okkur hefur ekki tekist að búa til þannig kerfi. Einokunin sem við glímdum við árið 2007 er enn á ákveðnum sviðum utan spítala í sambandi við stofnun Sjúkratrygginga. Okkur hefur ekki tekist að ná því umhverfi sem miðað var við. Það eru því mörg verkefni eftir. Ég held að við séum á réttri leið og vona að við getum fetað okkur þá leið áfram. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur þá miklu þekkingu sem er í íslenskum heilbrigðisstéttum og hjá heilbrigðisstofnunum. Þegar er veruleg útrás í gangi þó að maður megi ekki nota það orð, þ.e. uppbygging í tengslum við jafnöflug sjúkrahús og Landspítalann í sambandi við ýmis verkefni sem er verið að flytja út nú þegar.

Ég vona að ég hafi svarað þeim vangaveltum sem hér voru. Eins og ég sagði fór ég vísvitandi í ræðu af því að andsvarið hefði ekki dugað til að veita þær upplýsingar sem hér komu fram.