139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli sé ekki betra að kalla þetta meðsvar frekar en andsvar. Það er samhljómur í málflutningi hæstv. ráðherra og mínum. Við erum örugglega ósammála um eitthvað þegar kemur að heilbrigðismálum en það kemur alla vega ekki fram í þessari umræðu.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að tækifærin í samstarfi við Færeyinga og Grænlendinga eru mjög mikil. Grænlendingar hafa t.d., og Færeyingar í raun líka, lýst yfir áhuga á því að nýta samstarfið betur. Það má segja að hefð komi kannski helst í veg fyrir það. Að hluta til þjónustum við þá á Akureyri og hér á Landspítalanum en við gætum þjónustað þá mun meira en við gerum.

Til staðar er ferðatengd heilsuþjónusta sem lítið er rætt um í tengslum við augnlækningar. Hún fer aðallega fram á einkareknum stofum hér úti í bæ, glæsilegum stofum, þar sem fólk annars staðar að á Norðurlöndunum, þá sérstaklega Færeyjum, fer í augnsteinaaðgerðir og annað slíkt og er það hið besta mál. En það sem hæstv. ráðherra segir og er alveg rétt er að þetta snýst ekki um samkeppni í lágum launum, alls ekki, enda var aldrei lagt af stað með þá hugsun, alla vega ekki í mínum huga.

Tækifærin liggja, og ég vona að þau geri það enn, í pólitískum vilja á Norðurlöndunum fyrir því að koma á sameiginlegu heilsusvæði, eins og sumar þjóðirnar hafa komið á í sínum löndum. Áður fyrr var hvert heilsusvæði, t.d. í Svíþjóð, bara með sína sjúklinga og tiltölulega fá ár eru síðan þeir opnuðu fyrir flæði sjúklinga á milli. Ef við getum verið partur af slíku kerfi opnar það mikil tækifæri fyrir Landspítalann og alla heilbrigðisþjónustu hér á landi. Þetta var allt saman tilbúið. Þetta var eitt af helstu stefnumálum íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir formennsku í Norðurlandaráði 2009. Og það er (Forseti hringir.) synd og skömm og virkilega sorglegt að því hafi ekki verið fylgt eftir.