139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis leita til virðulegs forseta, ekki út af öllum skriflegu fyrirspurnunum mínum sem bíða, ekki það að ég vilji ekki fá svör við þeim, en ég fór fram á það 7. mars í hv. viðskiptanefnd að við fengjum bankastjórana og fulltrúa Bankasýslunnar til að ræða afkomu bankanna og annað sem að þeim snýr. Á endanum var því lofað að það yrði í nefndavikunni. Hún er núna búin. Ekki var fundað. Ég held að ég þurfi ekki að fara yfir öll þau álitaefni sem nauðsynlegt er að fara yfir með þessum tveim aðilum en vek athygli á því að forgangsröðunin var slík að það fór mjög mikill tími í smálán. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru smálán smálán. Það eru að koma tilskipanir sem gera það að verkum að við þurfum að breyta aftur (Forseti hringir.) lögum í haust um neytendalán en stóru málin, skuldamálin, eru búin að bíða í þrjá mánuði og við bíðum enn.