139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir skjót og góð viðbrögð við beiðni hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og annarra um að ganga eftir því við ráðherra og ráðuneyti að svörum við fyrirspurnum verði skilað til þingsins innan tilskilins frests. Það er því miður orðin lenska og hefur verið lengi að menn virða ekki þessa fresti. Fyrir því kunna að vera málefnalegar ástæður og þá ber að hafa samband við þingmenn og láta þá vita af því. Ég vona að forseti geti ýtt þessu í réttan farveg á næstu dögum og vikum.

Hitt vildi ég segja, frú forseti, af þessu tilefni að í þingskapanefndinni sem nú er að störfum hafa þessi mál nokkuð verið rædd. Ég er þeirrar skoðunar að forsætisnefnd Alþingis hafi og eigi líka að beita leiðbeiningarvaldi sínu gagnvart þingmönnum þannig að fyrirspurnir og skýrslubeiðnir fari í réttan (Forseti hringir.) farveg og síðan auðvitað líka því valdi sem nefndin hefur til að krefjast svara.