139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er gaman að sjá á þessum morgni hvernig hv. þingmenn strjúka fiðrið á forseta en ég skal vera í þeim hópi sem lýk lofsorði á fundarstjórn hennar. Ég spurði hvort hv. þingmaður hefði einhvern tíma gengið eftir þessu áður. Hv. þingmenn gáfu mér röng svör, það var kallað úr sal að hann hefði margsinnis gert það og nú kemur hann sjálfur og segir að hann hafi ekki gert það.

Spurning mín varðar kannski ekki efni málsins en hún varðar það hins vegar að aðhaldið sem þingmenn hafa ef þeim þykja úr hófi dragast svörin er að koma hingað og ganga eftir þeim. Ég held að það þurfi ekki að setja upp neina aganefnd eða sérstakar leiðbeiningar.

Síðan vil ég bara segja að það er tóm vitleysa hjá hv. þingmönnum að halda því fram að þetta sé eitthvað verra en áður. Öllum fyrirspurnum er þó svarað. Það er ekkert langt síðan að forsætisráðherra hér neitaði að svara sumum spurningum og hafnaði því að leggja fram skýrslu. Það er ekki lengra síðan en árið 2004.