139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[10:50]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn, um almenna þjónustu.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á umræddri ákvörðun EES-nefndarinnar frá 1. október 2010, um breytingu á X. viðauka, sem fjallar um almenna þjónustu við EES-samninginn frá 2. maí 1992, til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir til að greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006, um þjónustu á innri markaðnum.

Markmiðið með þessari ákvörðun er að kveða á um notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipun ESB. Aðallega er um að ræða kvaðir til EES-ríkja um að setja upp svonefndan traustlista yfir vottunaraðila sem gefa út rafrænar undirskriftir.

Það er ljóst að innleiðing þessarar tilskipunar mun kalla á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp frá efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um rafrænar undirskriftir, með síðari breytingum, fjalla um það efni.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.