139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Dagskráin í dag er þannig að góður tími er tekinn í EES-mál. Þau hafa stundum runnið mjög hratt í gegnum þingið og oft hefði verið betra að fara vel yfir þau.

Þegar ég les nefndarálit um þetta mál sakna ég þess að ekki er greint frá því hvaða áhrif þetta hefur annað en að setja upp svonefndan traustlista yfir vottunaraðila sem gefa út rafrænar undirskriftir. Þá er ég að vísa til þess, virðulegi forseti, að ég held að við notum í þónokkuð miklum mæli rafrænar undirskriftir hér á landi. Hv. þingmaður þekkir það kannski eftir að vera búinn að fara yfir þetta. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort þetta muni hafa einhverja breytingu í för með sér miðað við þann hátt sem við höfum á núna. Stundum hafa runnið í gegnum þingið mál sem ekki láta mikið yfir sér en hafa haft ýmiss konar áhrif.

Nú hef ég ekkert fyrir mér, virðulegi forseti, í því að þetta muni hafa lítil eða mikil áhrif en ég hefði talið eðlilegt að nefna það í nefndarálitinu. Hér er tilgreint að það kalli á lagabreytingar en stóra einstaka málið hlýtur að vera hvaða praktísku afleiðingar þessi ákvörðun hafi. Það væri mjög gott, virðulegi forseti, ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson færi aðeins yfir það.