139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í athugasemdum með þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar er fjallað um það í nokkrum orðum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ákvörðun 2009/767/EB fjallar um“ — sem áður segir — „notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipunina …

Í ákveðnum tilfellum er leyfisveitanda heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi noti rafræna undirskrift til að auðkenna sig er hann sækir um leyfi til að veita þjónustu í gegnum upplýsinga- og þjónustuveituna, sem kveðið er á um í þjónustutilskipuninni, í samræmi við tilskipun 1993/93 um rafrænar undirskriftir. Aðildarríkin skulu setja upp, viðhalda og birta „traustlista“ (trusted list) þar sem fram koma upplýsingar um vottunaraðila er gefa út rafrænar undirskriftir. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hver sjái um að setja upp og viðhalda traustlistanum.“

Hér er ekki um að ræða umfangsmikla breytingu á því fyrirkomulagi sem verið hefur til þessa. Hér er fyrst og fremst um að ræða að auka öryggi í þessu samhengi og ég er reyndar fullur trausts á að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem á sæti í viðskiptanefnd, muni fara rækilega yfir þetta mál þegar það kemur á þann vettvang til umfjöllunar. Það er reyndar mjög traustvekjandi að þingmaðurinn skuli sýna þessu svona mikinn áhuga. Hann mun þá væntanlega fylgja því eftir á vettvangi hv. viðskiptanefndar.