139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[10:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom í raun inn á þá spurningu sem ég ætlaði að leggja fyrir hv þm. Árna Þór Sigurðsson en ég vil þá fylgja henni eftir og spyrja: Hvað er þá nákvæmlega að núverandi kerfi þannig að þetta muni bæta það að því marki?

Í ljósi þess að við erum að tala um tilskipun og að við höfum oft talað um mikið flóð tilskipana sem við rýnum ekki alla jafna nægilega vel í, og ég held að reynslan hafi sýnt okkur að svo er í rauninni, menn hafa meðal annars bent á innstæðutilskipunina, vil ég einnig spyrja hv. þingmann um þá stöðu sem upp er komin í Noregi þar sem líklegt er að Norðmenn muni setja fyrirvara og ekki innleiða tilskipun ESB um póstdreifingu: Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að Norðmenn fari þá leið? Hvaða áhrif telur hann að þetta hafi á virkni EES-samningsins og er hann ekki sammála mér um að til þess að hafa EES-samninginn lifandi þurfi að vera mun öflugri eftirfylgni, m.a. á innleiðingu tilskipananna? Þarf ekki að efla þingið eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur margsinnis talað um að sé rétt að gera? Hann er sammála mér í því að efla þingið til muna varðandi allt það umstang sem kemur af því þegar við ætlum að efna samninginn, þar á meðal að innleiða tilskipunina.

Spurning mín eru í fyrsta lagi um Norðmenn, hvaða afstöðu hv. þingmaður taki til þeirrar stöðu sem er upp komin í Noregi. Mun sú afstaða Norðmanna hafa áhrif á EES-samninginn? Og er hann ekki sammála mér í því að við þurfum að efla þingið mun meira þegar kemur að því að fylgja eftir þeim réttindum og skyldum sem við höfum vegna EES-samningsins?