139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég leit yfir dagskrána í gærkvöldi og sá á henni ein sjö mál sem heita ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á tilteknum viðauka við EES-samninginn komu upp í huga minn fleyg orð úr frægu kvæði eftir Bubba Morthens, Ísbjarnarblús: Þúsund þorskar á færibandinu þokast nær.

Þessar tilskipanir birtast okkur eins og á færibandi hér dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og eins og ég hreyfði aðeins örstutt í andsvari við hæstv. utanríkisráðherra áðan held ég að það sé mjög kominn tími til þess að við förum með enn krítískari hætti yfir þessar tilskipanir en við höfum gert. Það er alveg rétt sem hv. formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, sagði áðan: Verklagið í þessu sambandi hefur verið lagað heilmikið frá því sem var. Hv. þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Benediktsson, hafði á sínum tíma að því mikinn atbeina og síðan hefur þessu verið fylgt eftir og auðvitað höfum við smám saman lært af reynslunni.

Ég var eins og hæstv. utanríkisráðherra meðal þeirra þingmanna sem sátu á Alþingi þegar EES-samningurinn var lögfestur og umræður um það urðu gríðarlega miklar og harðar og sneru að miklum grundvallaratriðum sem mörg eru mjög lík þeim sem við þekkjum núna úr ESB-umræðunni. Ýmislegt sem þá var sagt hraklegt um þann samning hefur ekki komið á daginn, en ýmislegt annað hefur hins vegar gerst í áranna rás sem gerir það að verkum að við þurfum að fara stöðugt og mjög rækilega yfir allt sem snýr að þessu.

Það er enginn vafi á því að þær spurningar sem vakna um fullveldi þjóðarinnar í tengslum við EES-samninginn eru eðlilegar. Þær voru mjög mikið ræddar á sínum tíma, fyrir tæplega 20 árum. Niðurstaðan þá hjá meiri hluta Alþingis var að kveða upp úr um það að samningurinn væri í samræmi við stjórnarskrá okkar og að við þyrftum ekki að gera neinar breytingar á henni til að lögfesta samninginn. Ég hef ekkert skipt um skoðun á því en engu að síður er það mjög áleitin spurning í hvert skipti sem yfir okkur dembast þessar runur af tilskipunum og gerðum. Þær virðast koma í gusum, a.m.k. inn í þingið, til umræðu og síðan til ákvörðunar eins og við sjáum hérna. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að um þessi mál fari fram vönduð umræða.

Hv. formaður utanríkismálanefndar hefur gert grein fyrir þessu tiltekna þingmáli hérna og ég ætla aðeins að fara orðum um það síðar í ræðu minni. Ég hvet hins vegar hv. þingmann til að tala hér skýrt og greinilega um þessi mál, hann gerir það alla jafna. Ég er með góða heyrn og athyglisgáfa mín núna í morgunsárið er með besta móti, en engu að síður hvet ég hv. þingmann til að gera okkur sem erum að hlýða á og viljum kynna okkur til hlítar hvert einasta af þessum sjö málum áður en við tökum um það ákvörðun hvort kleift er að skilja vel um hvað þetta snýst.

Úr því að ég nefni þetta kemur skyndilega upp í huga minn að hér var einu sinni mætur félagi minn lengi formaður efnahags- og viðskiptanefndar eins og hún hét þá, Vilhjálmur Egilsson, núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og hann hafði þann háttinn á þegar hann mælti fyrir málum sem hann lagði áherslu á að fengju hér skjóta og góða afgreiðslu að hann talaði frekar hratt og lágt og með því var hann að stuðla að því að málin fengju greiða og góða leið í gegnum þingið.

Ég ætla ekki að kveikja þessa hugmynd hjá hv. formanni utanríkismálanefndar (ÁÞS: Búinn að því.) — og sé þá eftir orðum mínum ef ég er búinn að kveikja þessa hugmynd. Ég var bara að undirstrika þetta og taka það upp í dæmaskyni vegna þess að við erum hér að ræða um ýmis svo stór mál sem við sjáum hér af listanum, hér er verið að tala um neytendavernd, umhverfisvernd, hér erum við að tala um stór mál eins og fjármálaþjónustu og fjármagnsflutninga, umhverfismál almennt o.s.frv., að við þurfum auðvitað að hafa hér galopin eyrun og fylgjast gríðarlega vel með öllu því sem verið er að tala um.

Sú umræða sem hefur farið fram það sem af lifir morgunsárinu hefur að mínu mati verið ákaflega athyglisverð og góð og þess eðlis að hún verðskuldar að við förum aðeins nánar yfir þessa hluti. Bæði hv. formaður utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra, sem ég þakka fyrir að vera við þessa umræðu, sem hann reyndar gerir að jafnaði og á þakkir skildar fyrir það, eru hér og þessi umræða hefur gefið okkur tilefni til að fara yfir þessi mál á aðeins breiðari grundvelli. Það er alveg rétt að þegar EES-samningurinn var á sínum tíma lögfestur, fyrir tæplega 20 árum, fór fram mikil umræða um fullveldið og hvort við værum að afsala okkur því. Það sem menn bentu mjög mikið á í því sambandi var einfaldlega sú staðreynd sem hér hefur verið gerð að umtalsefni í andsvörum og því sem af er þessari umræðu að við hefðum þennan mögulega rétt til að hafna einstökum tilskipunum og gera fyrirvara sem gerði það að verkum að viðkomandi tilskipun tæki þá ekki gildi. Menn veltu fyrir sér mögulegum afleiðingum af þessu og mig rekur minni til hins sama og hæstv. utanríkisráðherra sagði hér áðan, að þáverandi hæstv. utanríkisráðherra hefði talið að þá væri líklegast að eingöngu sú tilskipun tæki ekki gildi og það væri beitt einhvers konar meðalhófsreglu eins og menn tala núna um í stjórnsýslurétti hérlendis um þetta.

Reyndin hefur hins vegar orðið önnur. Nú tala menn fremur um að það að hafna eða gera fyrirvara um lögfestingu tiltekinna tilskipana Evrópusambandsins gæti haft miklu alvarlegri afleiðingar. Þá erum við komin í ákveðinn siðferðilegan vanda. Tökum dæmið frá Noregi sem núna er verið að ræða um varðandi póstlöggjöfina, ef svo fer að það hafi enn meiri afleiðingar fyrir Norðmenn en bara sem lúta að þeirri tilteknu löggjöf eru Norðmenn settir í mjög óþægilega stöðu. Norðmenn eru eins og við mjög háðir viðskiptum við Evrópusambandið og ríki Evrópusambandsins. Þess vegna þurfa þeir þá að meta stöðu sína og afstöðu til málsins í ljósi þess hvort þeir séu að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Svona dæmi koma auðvitað upp í mannlegum samskiptum, samskiptum milli fólks, milli stjórnmálamanna og ég tala nú ekki um á milli ríkja, ekki bara á vettvangi Evrópusambandsins heldur miklu víðar. Það breytir ekki því að þetta setur þetta mál allt saman í miklu víðtækara og athyglisverðara ljós og gerir það að verkum að menn verða að velta því mjög vel fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur að reyna að bregða fæti fyrir samþykkt einstakra tilskipana. Ef afleiðingarnar verða síðan miklu meiri en lúta bara að því einstaka máli, setja til dæmis viðskipti heillar þjóðar við sitt mikilvægasta markaðssvæði í einhvers konar uppnám, þarf að gæta að því.

Það er líka alveg rétt sem hér hefur komið mjög glögglega fram í umræðunni og mér finnst ástæða til að leggja áherslu á núna þegar við erum að meðhöndla fyrsta þorskinn á færibandinu, svo ég haldi mig við líkinguna úr kvæði Bubba Morthens, þegar við erum að taka hér fyrir fyrsta málið af þessum sjö sem til stendur að ræða, að það er ástæða til að fara aðeins fleiri orðum um það sem kom fram í orðaskiptum okkar hæstv. utanríkisráðherra áðan. Það er spurningin hvaða möguleika við höfum til að hafa áhrif á málin á fyrra stigi.

Auðvitað er það alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt, Evrópusambandið hefur breyst í áranna rás. Staða Evrópuþingsins er talin núna sterkari en hún var og með því að vera utan Evrópusambandsins höfum við ekki alla möguleika á því stigi til að hafa áhrif á niðurstöðu máls. Við höfum hins vegar ýmsa möguleika, eins og hér hefur verið rækilega rætt, til að hafa áhrif á málin á fyrri stigum.

Ég ætla að taka nokkur dæmi. Í fyrsta lagi þegar málin eru rædd og þau koma til umræðu hjá Evrópusambandinu hafa einstakir ráðherrar sem fara með viðkomandi málasvið mikla möguleika til að fylgjast með málunum á frumstigi. Í þessu sambandi er ástæða til að undirstrika að öll ráðuneytin hafa sína fulltrúa starfandi úti í Brussel, beinlínis til þess að fylgjast með þróun einstakra málaflokka innan Evrópusambandsins. Mönnum hefur stundum óað við þeim kostnaði sem þessu fylgir en þetta er bara hluti af því sem við erum að gera með því að fylgjast með því sem er að gerast á vettvangi einstakra málefnasviða og reyna þá eftir atvikum að hafa áhrif á þau. Við vitum að stundum þróast málin einfaldlega á grundvelli samskipta embættismanna en stundum þarf að hafa meira við og kalla til þá sem fara með hið pólitíska forræði í einstökum málaflokkum. Ég hygg að oft hafi verið misbrestur á þessu.

Hér hefur til dæmis borist í tal sú löggjöf sem við mögulega ræðum hér og er að minnsta kosti á dagskrá síðar í dag, um innlánstryggingar. Eitt af því sem hefur verið vakin athygli á í þeirri umræðu er að nú háttar svo til að hér er um að ræða löggjöf frá Evrópusambandinu sem Evrópuþingið hefur samþykkt, þess vegna er hún auðvitað löggjöf. Hins vegar háttar þannig til að sú löggjöf hefur ekki verið staðfest innan EES, aðrar þjóðir hafa ekki gert það og við erum ekki í þeirri stöðu að málið standi og falli með afstöðu okkar til þess. Þá hlýtur auðvitað að koma mjög til álita með hvaða hætti við afgreiðum svona mál sem hefur þó ekki meiri afleiðingar í för með sér fyrir okkur en að við erum ekki ráðandi aðilar um afdrif málsins, a.m.k. ekki til skemmri tíma.

Svo háttar líka til að einmitt þessa sólarhringana, þessa mánuðina og þessi missirin er unnið að nýrri tilskipun um nýtt innlánstryggingakerfi sem Evrópusambandið vinnur að og þar höfum við gríðarlega mikla möguleika á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það er alveg þekkt að Norðmenn hafa beitt sér mjög í þessum efnum, að vísu ekki endilega á þeim nótum sem er heppilegt fyrir okkur Íslendinga en engu að síður eru þeir að beita sér í þessum efnum af því að þeir hafa þarna mikla möguleika til þess. Það er ástæða til að hvetja til þess að stjórnvöld okkar geri það með sama hætti, beiti sér í þessum málaflokki á þann veg sem við teljum skynsamlegt.

Ég ætla bara sem útúrdúr að segja að ég hef tekið eftir því að ýmsir hafa rekið hornin í það að við séum að reyna að biðja um eitthvað sem við köllum séraðstöðu fyrir okkur, en ég tel það ekkert óeðlilegt. Ef íslensk stjórnvöld meta það sem íslenska hagsmuni að kalla fram einhver sérákvæði fyrir okkur eigum við að gera það. Það er bara eðlilegur hluti af eðlilegri hagsmunagæslu fyrir okkur sem fullvalda þjóð að stjórnvöld okkar beiti sér til að hafa áhrif á niðurstöður einstakra mála áður en þau koma til framkvæmdastjórnarinnar eða síðar til Evrópuþingsins.

Við höfum oft nefnt hér önnur dæmi. Ég man ekki nákvæmlega í hvaða máli það var sem hæstv. utanríkisráðherra tók þátt í umræðunni og vakti athygli á því að þegar hann var umhverfisráðherra hefði hann staðið frammi fyrir nýrri löggjöf í fráveitumálum sem á margan hátt passaði mjög illa við íslenskan veruleika. Við vitum að sú fráveitulöggjöf var meðal annars miðuð við þarfir landluktra ríkja eins og til dæmis Austurríkis og ríkja sem bjuggu við allt aðrar aðstæður en við sem erum fámenn þjóð, búum í strjálbýlu landi, mest við sjávarströndina, og Norður-Atlantshafið getur að sumu leyti séð um hluti sem menn eru í bölvuðu basli með sem búa í landluktum ríkjum. Í þessu felst ekki það að við viljum ekki ganga vel um umhverfi okkar, það er enginn að tala um það. Stundum eru aðstæður bara þannig að það sem menn setja löggjöf um í Evrópusambandinu miðast við þarfir þar en passar ekkert fyrir okkur. Afleiðingin af þessu var meðal annars sú að við urðum að setja sérstök lög á Alþingi sem fólu í sér sérstakan stuðning ríkisins við fráveituframkvæmdir og ég geri ráð fyrir að það hafi að lokum skipt milljörðum fyrir íslenska ríkið þegar upp var staðið hvernig við urðum síðan að vinna að þessum málum. Auðvitað kostaði þetta sveitarfélögin sömuleiðis. Þannig getum við haldið áfram, við gætum líka rætt um raforkulögin sem oft eru tekin sem dæmi um löggjöf sem við fengum yfir okkur. Ég ætla hins vegar í sjálfu sér ekki að nefna það frekar, það hefur svo oft verið gert.

Við höfum síðan miklu fleiri aðkomuleiðir eins og við þekkjum, ég nefndi embættismannagrundvöllinn. Við þekkjum það síðan sem hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan og er algjörlega rétt, að við höfum líka á hinu pólitíska sviði sem þingmenn ýmsa möguleika í þessum efnum og það höfum við ekki nýtt okkur. Þar getum við hins vegar fyrst og fremst litið í eigin barm. Meðal annars vegna fjárhagslegra þrenginga höfum við ekki talið skynsamlegt að forgangsraða með því að leggja meiri peninga í þessi samskipti en við leggjum hins vegar á sama tíma 1 milljarð kr. í aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er þá skýrt dæmi um að menn telji betra að forgangsraða í þessum efnum og gera það með þeim hætti að leggja peningana í aðildarumsóknina að Evrópusambandinu í stað þess að leggja að minnsta kosti hluta af því fjármagni í að nýta okkur alla þá möguleika sem við höfum innan vébanda EES-samningsins til að hafa áhrif á gang ýmissa mála.

Ég ítreka að sú umræða sem kviknaði hér í orðaskiptunum varð tilefni til þess að ég fór að halda þessa ræðu, þó lengri en ég hafði hugsað mér í upphafi. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að eiga orðaskipti um þessi mál og það gerum við örugglega þegar líður frekar á umræðuna. Hún er svo sem ekkert að fara frá okkur.

Þá langar mig að koma sérstaklega að þeirri tilskipun sem hérna er rætt um. Við fyrri umr. málsins tók til máls hv. þm. Pétur H. Blöndal og vakti athygli á því að hér kynni að vera dæmi um tilskipun sem var að berast frá Evrópusambandinu sem væri að einhverju leyti svar við því efnahagshruni sem hefði orðið, ekki bara á Íslandi heldur úti um öll lönd og álfur liggur mér við að segja, a.m.k. um alla Evrópu. Evrópa er náttúrlega ekki enn búin að súpa seyðið af því öllu saman og er í miklum vanda. Það sem verið er að gera með þessari tillögu er að það er verið að búa til einhvers konar rafrænt vegabréf fyrir fyrirtæki sem gæti þá líka átt við um einstaklinga í þeim tilvikum sem verið er að búa til þjónustusamninga um kaup eða sölu á þjónustu yfir landamæri. Þarna er með öðrum orðum komið að kjarna mjög umdeilds máls, þjónustutilskipunar Evrópusambandsins. Nú hefði verið gott að hafa hæstv. innanríkisráðherra til að ræða þessi mál vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra fór hér hamförum, liggur mér við að segja, í ræðustól Alþingis og víðar opinberlega þegar þjónustutilskipunin var til umfjöllunar. Ef ég man rétt afgreiddi ríkisstjórnin á sínum tíma afstöðu sína til þjónustutilskipunarinnar með tilteknum fyrirvörum og breytingum eða að minnsta kosti með einhverjum þeim hætti sem talið var þá viðunandi til að ná um það samstöðu á hinum pólitíska vettvangi ríkisstjórnarinnar á sínum tíma.

Sú tilskipun sem við erum hérna að ræða er tilraun til löggjafar sem lýtur að framkvæmd á sjálfri þjónustutilskipuninni. Þetta er með öðrum orðum eiginlega pólitískara mál en maður gerði sér grein fyrir þegar maður skoðaði þetta fyrst. (Gripið fram í.) Það gæti verið tilefni til að kalla eftir hæstv. innanríkisráðherra.

Það sem mér sýnist menn vera að gera hérna er að auðvelda þjónustukaup og þjónustusölu yfir landamæri. Ef ég man rétt var umræðan um þjónustutilskipunina um það einfaldlega að hún gæti falið í sér mikla hættu á undirboðum á almennum launamarkaði, til að mynda hér á Íslandi. (Utanrrh.: Það var skotið loku fyrir það.) Það var skotið loku fyrir það, segir hæstv. utanríkisráðherra, en það breytir ekki því að það sem verið er að reyna hérna er að auðvelda þessi þjónustuviðskipti yfir landamæri með því að þau þurfi ekki að lúta því að menn skrifi undir, sendi síðan á milli sín í pósti undirskriftir og þess háttar, heldur er verið að opna á að þessar undirskriftir geti farið fram með rafrænum hætti. Það er sem sagt verið að greiða fyrir þjónustuviðskiptum yfir landamæri. Það er kjarninn í þeirri tilskipun sem við erum hérna að ræða. Og þó að loku hafi verið skotið fyrir það að menn gætu stundað undirboð, og ég ætla ekkert að efast um það, ég er meðal annars sannfærður um að verkalýðshreyfingin hefði ekki nokkurn tíma léð máls á neinu slíku ef það hefði ekki verið gert, er engu að síður verið að opna á þennan möguleika með þessum rafrænu viðskiptum, stuðla að frekari þjónustuviðskiptum, getum við sagt, milli landa.

Þó að ég sé ekki mjög tölvufróður maður, ég skal bara segja eins og er að ég er mjög tölvuófróður maður, vaknar engu að síður spurning í mínum kolli um öryggið sem fylgir þessu fyrirkomulagi um rafrænar undirskriftir. Við þekkjum úr tölvuheimum að menn hafa misnotað hluti og ég hygg að það þurfi að gá mjög vel að því þegar löggjöfin verður samþykkt um þessa hluti, sem á eftir að gera á Alþingi, að það sé tryggilega frá því gengið að ekki sé hætta á neinni misnotkun í rafrænum undirskriftum. Mér hefði þess vegna fundist fróðlegt ef hv. formaður utanríkismálanefndar hefði getað svarað því hvort nefndin hefði í vinnslu sinni um þetta mál farið sérstaklega yfir það hvernig reynt yrði að tryggja að þetta væri gert með (Forseti hringir.) sæmilega öruggum hætti. Hin pólitíska yfirlýsing er alveg skýr, þetta frumvarp er til þess fallið og hefur þann tilgang (Forseti hringir.) að auðvelda þjónustuviðskipti milli landa.