139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka viðurkenningarorð hv. þingmanns en ég vil nú segja að það er mjög ofmælt hjá henni að ég sé einhver mikill sérfræðingur um sögu EES-samningsins. (Utanrrh.: Láttu ekki svona.) Mig rekur minni til eins og annars en ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er minnugri en ég á þessa gömlu tíma enda var hann aðeins eldri en ég á þeim tíma eins og hann er núna.

Hv. þingmaður spurði mig hvort ég teldi nægilega mikið gert varðandi það að við reynum að hafa áhrif á mál á vettvangi Evrópusambandsins, hvort við þurfum að gera meira, þá var hv. þingmaður fyrst og fremst að spyrja um möguleika okkar á hinu pólitíska sviði. Svar mitt er já. Ég tel að þær ábendingar sem við settum fram í mars 2007 í Evrópunefndarskýrslunni eigi enn við. Það er bara einfaldlega þannig að við eigum gríðarlega mikil samskipti við Evrópusambandið og viðskipti. Við höfum ýmsar skoðanir á því og ég hef mínar eindregnu skoðanir á Evrópusambandinu og aðildinni að því, sem allir vita að ég er á móti. Það breytir ekki því að við höfum þessi miklu samskipti og eigum gífurlega mikil viðskipti, þetta er langsamlega mikilvægasta viðskiptasvæði okkar Íslendinga.

Við sjáum líka að í vaxandi mæli eru þessar tilskipanir að koma hingað inn í þingið sem hafa áhrif á löggjöf okkar. Þess vegna eru allir hagsmunir okkar í því fólgnir að reyna að hafa áhrif á þetta á sem flestum stigum. Það er enginn vafi á því að vegna hrunsins og vegna þeirra aðgerða sem við höfum verið að grípa til í ríkisfjármálum hafa þingmenn einfaldlega veigrað sér við því að leggja til útgjöld á þessum sviðum þó að það séu himinhrópandi hagsmunir sem kalla á að við gerum þetta. Ég held að við þurfum að hysja upp um okkur brækurnar og reyna að bregðast við þessu með öðrum hætti.

Ég ætla síðan í öðru andsvari að koma aðeins inn á gjaldeyrishöftin.