139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það standi upp á okkur að gæta hagsmuna okkar í Brussel, okkar þingmanna eða löggjafarvaldsins, þannig að ég held að við eigum að fylgja því eftir. Það upplýstist í gær, á fundi fjárlaganefndar, að forsætisnefnd vinnur að því að breyta fyrirkomulaginu varðandi fjárlagafrumvarpið að því er varðar Alþingi Íslendinga. Ég held að það sé mjög til bóta að tillögurnar um fjárheimildir þingsins komi ekki frá fjármálaráðherra sem slíkum heldur að forsætisnefndin leggi þær fyrir fjármálaráðherra sem síðan fylgi þeim eftir. Það er miklu réttara vinnulag og stuðlar að því að efla sjálfstæði þingsins hvað þetta varðar. Þá vona ég, þegar það verður gert, að menn taki meðal annars tillit til þessarar umræðu sem við erum sífellt að endurtaka. Við erum öll sammála um að EES-samningurinn hefur verið okkur mikilvægur og hann getur verið okkur mikilvægur áfram, þ.e. ef við gætum hagsmuna okkar og reynum að nota þau tæki og tól sem okkur standa til boða þegar að samningnum kemur.

Ég mun hins vegar bíða spennt eftir því hvert svar hv. þingmanns verður er snertir gjaldeyrishöftin sem ég tel, og það eru margir aðrir sem telja það, að séu í hróplegri andstöðu við EES-samninginn.