139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að endurtaka það sem við hv. þingmaður erum sammála um, að skynsamlegt sé fyrir okkur, og ég tel að það sé alveg sérstaklega skynsamlegt fyrir okkur af því að við stöndum utan Evrópusambandsins, að við reynum að nýta þær leiðir sem við höfum til að hafa áhrif á það sem verið er að gera í lagasetningu, sérstaklega í lagasetningu sem lýtur að íslenskum hagsmunum.

Um það varð á sínum tíma samstaða en ég hygg að það sé ekkert ofmælt hjá mér að segja að vegna þeirra fjárhagslegu aðstæðna sem við bjuggum við og höfum búið við, og erum enn þá föst í vegna þessarar vondu ríkisstjórnar, höfum við ekki haft burði til að leggja fjármuni í þennan mikilvæga málaflokk, að reyna að hafa meiri aðkomu að ýmsum gerðum og tilskipunum Evrópusambandsins sem eru síðan að hitta okkur fyrir og stundum mjög illa.

Varðandi gjaldeyrishöftin var það þannig að haustið 2008 stóðum við einfaldlega frammi fyrir mjög erfiðri stöðu. Ég og hv. þingmaður vorum þá ráðherrar í ríkisstjórn og tókum um það ákvörðun, sem var fullgilt hér á Alþingi, að setja á þessi gjaldeyrishöft. Ég hygg að ekki hafi hvarflað að nokkrum manni annað en að þetta yrði skammtímaaðgerð sem við mundum smám saman vinda okkur út úr. Og strax vorið 2009 tókum við umræður um þetta í þinginu þar sem við vorum að hvetja til þess að strax þá yrði farið að stíga einhver skref og ríkisstjórnin lofaði því raunar að haustið 2009 yrðum við komin á fleygiferð út úr gjaldeyrishöftunum.

En hvað sjáum við? Nú er komið vorið 2011 og hvað er verið að gera? Nú er verið að reyna að þvinga okkur til að lögfesta gjaldeyrishöft sem aldrei fyrr, þvæla okkur lengra inn í höftin en nokkru sinni áður. Margir vöruðu okkur við þegar við settum gjaldeyrishöftin á að það væri einmitt það sem mundi gerast. Ég trúði því ekki að það þyrfti að verða þannig en við búum hins vegar við ríkisstjórn sem vill vinna með þessum hætti og gengur meira að segja svo langt að hún ætlar að hirða af ferðafólki, sem er að koma til landsins, klinkið sem það hefur látið í poka til Vildarbarna; knýja fólkið til að koma með þetta klink og fara með það ofan í Seðlabanka og afhenda það þar svo að ekki fari sent eða dæm fram hjá vökulum augum Seðlabankans.