139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að við séum að tala um innleiðingar á tilskipunum á sama tíma og ríkisstjórnin stefnir að einhvers konar einangrun landsins. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé til að einfalda umhverfið eða umfjöllun varðandi þá aðlögun sem er í gangi að Evrópusambandinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tvennt sem kom fram í ræðu hans áðan. Hann nefndi fullveldið. Hv. þingmaður sagði, ef ég hef tekið rétt eftir, að þegar EES-samningurinn hafi farið í gegnum þingið hafi verið lögð áhersla á að einhvers konar neitunarvald, að geta hafnað ákveðnum tilskipunum, eða í það minnsta að fresta því að innleiða þær, hafi verið hluti af því að ná meiri sátt en leit út fyrir að verða varðandi EES-samninginn. Er það þá rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður telur jafnvel að við gætum ekki nóg að þessum rétti okkar sem var settur inn í EES-samninginn, þ.e. að við eigum að nýta okkur það í meira mæli alla vega að fá frest og jafnvel að segja nei takk þegar tilskipanir koma frá Evrópusambandinu?

Eftir því sem ég kemst næst þá byggist það á tilskipun Evrópusambandsins að nú er farið að skilgreina bændur sem fóðurframleiðendur, að bændur séu einhvers konar fóðurframleiðslufyrirtæki, þeir sem heyja og búa til korn. Kannast hv. þingmaður við það?