139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög merk og þörf umræða. Það sem er vont við hana er kannski það að það er eins og þingmenn hlusti ekki á það sem fram hefur komið fram í umræðunni. Hv. þingmaður lagði til dæmis mikla áherslu á að endurskoða þyrfti vinnuferilinn við EES-gerðir hér í þinginu en einmitt þessar vikurnar er verið að fara í gegnum nýjan feril. Það er farið miklu nákvæmar yfir allar gerðir í utanríkismálanefnd. Þær eru sendar til annarra þingnefnda sem geta gert athugasemdir. Þetta kom allt mjög skýrt fram fyrr í umræðunni. Mér finnst það kannski helsti gallinn við það sem hér fer fram, að menn virðast ekki hlusta.

Ég ætlaði að spyrja hvort það væri rétt tekið eftir hjá mér að hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á og sé með fleiri (Forseti hringir.) EES-mál en ríkisstjórnir hafa verið með hingað til. Mig langar til að spyrja hann af hverju hann haldi að svo sé.