139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og öðrum sem hér hafa talað fyrir efnisríka umfjöllun og innlegg í umræðu um þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar um rafrænar undirskriftir og hvernig auka megi traust í meðferð þeirra. Þingmaðurinn fór reyndar um víðan völl í máli sínu. Það er tvennt sem ég mundi vilja inna hv. þingmann eftir. Í fyrsta lagi: Er hv. þingmaður og flokkur hans e.t.v. þeirrar skoðunar að við eigum að segja upp EES-samningnum? Þetta er að gefnu tilefni og vegna orða sem þingmaðurinn hefur látið hér falla. Í annan stað, þegar hann fjallar um áhrif Íslands á Evrópuþinginu, ef niðurstaðan yrði sú að við gengjum í Evrópusambandið, talar hann um að áhrif okkar þar yrðu undir 1% andspænis 99% vegna þess að þingmannafjöldinn yrði þannig: Lítur þingmaðurinn svo á að á Evrópuþinginu muni íslenskir þingmenn alltaf standa saman í öllum málum gegn öllum hinum? Er það upplifun hans af Evrópuþinginu? Þannig talaði hann í ræðu sinni áðan.