139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég var nú ekki farinn að hugsa svo langt með samstöðu íslenskra þingmanna á Evrópuþinginu. Ég var einfaldlega að benda á þá staðreynd að eftir 2014 verðum við með núll komma eitthvað prósent vægi þarna inni og ég hef verulegar áhyggjur af því ef til þess kemur, sem ég hef reyndar fulla trú á að verði ekki þannig að ég ætti kannski ekki að hafa þær áhyggjur.

Varðandi hitt, um uppsögn á EES-samningnum, ég veit ekki til þess að nokkur framsóknarmaður eða a.m.k. þingmaður á Alþingi í dag hafi mælst til þess að við segðum upp EES-samningnum. Það kom meira að segja fram í ræðu minni áðan að ég teldi rétt að styrkja EES-samninginn, að Íslendingar ættu að beita sér fyrir því að draga fleiri lönd að honum og vinna áfram á þeim grunni. Ég held að það sé mjög erfitt og ekki hægt og í rauninni ekki skynsamlegt að segja sig frá þeim samningi. En það segir okkur kannski líka að þegar við erum gengin í Evrópusambandið, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki, verðum við föst (Forseti hringir.) þar líklega að eilífu.