139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þakka þingmanninum fyrir svör hans. Ég vil bara árétta það að burt séð frá afstöðu manna til aðildarinnar að Evrópusambandinu, sem þjóðin mun að sjálfsögðu leiða til lykta, finnst mér mikilvægt að menn ræði hlutina á málefnalegum forsendum. Þetta með að hræða menn með því að áhrif Íslands á Evrópuþinginu, ef til kæmi, yrðu svo lítið af því að þingmannafjöldinn yrði eitthvað undir einu prósenti af þingmannafjöldanum á Evrópuþinginu, finnst mér ekki málefnalegt. Reynsla mín af samskiptum við Evrópuþingið og Evrópuþingmenn er sú að þar skiptist menn miklu frekar eftir flokkahópum og svona pólitískum línum en endilega eftir því hvaða landsdeild menn skipa. Ég held að áhrif íslenskra þingmanna yrðu fyrst og fremst í gegnum þá flokkahópa sem þeir mundu taka þátt í ef til kemur, ef það yrði niðurstaðan að ganga í Evrópusambandið, en ekki það að þingmenn Íslands yrðu alltaf sammála í öllum málum andspænis öllum hinum (Forseti hringir.) sjö hundruð og eitthvað.