139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti nokkuð áhugavert að hlusta á orðaskipti hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Ég held að það sé á engan hallað þegar maður lýsir því að maður hafi orðið var við nokkra geðshræringu hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni þegar talað var illa um Evrópuþingið, hann taldi að þegar á Evrópuþingið væri komið, ef af yrði, mundu menn renna ljúflega inn í aðra þingmannahópa og takast þannig á við málin. Nú er það svo sem ekki efni þessarar umræðu, en þó held ég að það sé alveg ágætt að fara yfir það við þetta tilefni. Það er alveg sama þó að það séu til ákveðnir þingmannahópar — og getur vel verið að Vinstri grænir séu búnir að „plasera“ sig í einum slíkum, mér heyrist það á hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni — sem eiga að fara eftir eitthvað sambærilegum línum og eru í íslenskri pólitík. En það getur verið svolítið snúið fyrir íslenska flokka að finna eitthvað sem er þannig að öllum líki, þ.e. þessar alþjóðlegu flokkagrúppur.

Það er nú líka þannig, virðulegi forseti, að við erum kosin til að gæta hagsmuna Íslendinga. Ef við færum í Evrópusambandið væri Ísland kjördæmi okkar. Ég hitti eitt sinn breskan þingmann og mér er það minnisstætt vegna þess að hann var einn af fáum breskum þingmönnum sem hafa áhuga á sjávarútvegsmálum, hann var úr slíku kjördæmi. Alla jafna kippa breskir þingmenn, þeir sem ég hef hitt, sér ekki mikið upp við sjávarútvegsmál og þekkja lítið til þeirra að öðru leyti en því að þeir hafa flestir borðað mjög reglulega „fish and chips“ og líkar frekar vel — ég bið virðulegan forseta afsökunar á því að ég sletti ensku, kannski væri nær lagi að segja fisk og franskar. Á þann veg upplifir maður einna helst, með smákerskni, áhuga breskra þingmanna þegar kemur að fiski. Það var ekki þannig með þennan þingmann. Þetta var þingmaður í breska þinginu. Hann sagði mér frá því, og var mikið niðri fyrir og fannst það afskaplega erfitt: Þegar kjósendur mínir koma til mín og segjast vera ósáttir við sjávarútvegsmálin, vilja að tekið sé á einhverju í sjávarútvegsmálum, þá er það eina sem ég get sagt: Ég hef ekkert með þetta að gera. Þið verðið að tala við Evrópuþingmann. Og nú eiga þeir fullt af Evrópuþingmönnum.

Úr því hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vildi ræða Evrópuþingið í tengslum við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu — sem ég vona að verði alls ekki — skulum við setja þetta í eitthvert samhengi. Af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem þekkir sjávarútvegsmálin betur en flestir þingmenn og landsmenn, er hér í salnum skulum við ímynda okkur að hann fari á heimaslóðir sínar í Snæfellsbæ. Hann lítur kannski í búðina hjá pabba sínum á Hellissandi og hittir þar kjósendur og þeir eru ósáttir við eitthvað í sjávarútvegsmálum. Það eina sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson getur þá sagt er: Því miður, ég get ekkert rætt þetta því að þetta er ekki á Alþingi Íslendinga; þetta er í Evrópuþinginu.

Halda menn, virðulegi forseti, að þá muni fimm íslenskir þingmenn breyta sjónarmiðum 755 þingmanna, eða hvað þeir verða, í grundvallaratriðum? Nú hef ég mikla trú á Íslendingum almennt og efast ekkert um að ef svo illa færi að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði ágætisfólk kosið þar inn. En ég vil bara biðja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar, að velta þessu aðeins fyrir sér úr því hann tekur málefni Evrópusambandsins og Evrópuþingsins upp í umræðunni um þessa tilskipun.

Menn hafa líka rætt hvaða áhrif við getum haft á þessar tilskipanir og það er þörf umræða. Ég gerði það að umtalsefni varðandi þessa tilskipun hve lítið var um það fjallað hvaða áhrif hún hefði á Ísland. Það var heldur ekki ljóst af málflutningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hvað væri á ferðinni, þ.e. þessar rafrænu undirskriftir, hvort það fyrirkomulag sem við höfum á Íslandi væri mjög gallað og hvort það væri gott fyrir okkur Íslendinga að innleiða þessa tilskipun. Ég varð ekki var við það, í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að hann færi efnislega yfir það. Það er miður. Það getur vel verið að þetta sé fullkomið smámál og skipti litlu máli, en ég las yfir tilskipanirnar sem við munum ræða í dag. Ég held að maður geti alveg sagt að maður sé ekki miklu nær hvað þetta þýðir. Nú er verið að setja þetta inn í íslensk lög og setja ákveðna hluti af stað. Mér fyndist ekkert vitlaust að við vissum hvað menn fara síðan að samþykkja í atkvæðagreiðslu á eftir. Mér finnst það ekki til of mikils mælst.

Þarna erum við komin að hlut sem ég vildi spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sérstaklega út í og það er nálgun Íslendinga í þessu og hæstv. ríkisstjórnar. Við ræðum hér fleira en þessa einu tilskipun. Við erum hér meðal annars að bera okkur saman við Norðmenn. Ég verð að viðurkenna að mér sýnist að Norðmenn séu algjörlega ófeimnir við að gæta hagsmuna sinna í samskiptum við Evrópusambandið á meðan hæstv. ríkisstjórn heykist á því að gæta hagsmuna Íslands. Ég vil fá sjónarmið hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar á þessu.

Til að upplýsa hvað ég er hér að ræða um ætla ég að lesa, með leyfi forseta, lauslega þýðingu úr ræðu Jonasar Gahr Støre, sem er utanríkisráðherra Noregs. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fylgdist með því þegar hann flutti hana um daginn og benti mér á hana en hún varðar gríðarlega stórt hagsmunamál okkar Íslendinga, sem er innstæðutryggingakerfið. Norðmenn hafa ákveðna skoðun á þessari tilskipun. Ég ætla að lesa stuttan kafla í ræðu utanríkisráðherra Norðmanna um innstæðutryggingakerfið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem við viljum fá undanþágu frá reglugerðum ESB þurfum við að rökstyðja að sú undanþága eða aðlögun feli hvorki í sér mismunun né hafi samkeppnishamlandi áhrif. Það höfum við gert með innstæðutrygginguna og kröfu okkar um óbreytta ábyrgð upp á 2 millj. kr. tryggingu á hverri innstæðu í banka. Tilskipun ESB er í endurskoðun. Við erum að vinna að því að fá inn nýjan texta þar sem Noregi verði heimilt að viðhalda sömu stöðu sem hefur verið óbreytt frá 1996. Evrópusambandið hefur nú þegar samþykkt að samræma að fullu upphæðina í 100 þús. evrur frá 1. janúar 2011. Sú hugmynd er í fullu samræmi við nýja tilskipun um innstæðutryggingar sem nú er til skoðunar í ESB. Áður fyrr var miðað við lágmarksupphæð. Það er erfitt að fá undanþágu frá reglugerðum ESB. Grundvallarregla ESS-samningsins er einsleitni. Löggjöf á að innleiða á sama hátt í öllum 30 ríkjum EES í því skyni að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði og jafnræði sem við öll njótum. Í umræðum um innstæðutryggingartilskipunina er mikilvægt að rökstyðja að aðlögunin eða undanþágan muni ekki hafa í för með sér mismunun eða samkeppnishamlandi áhrif. Við höfum gert tillögur að sérstöku fyrirkomulagi sem í raun á að tryggja jafna samkeppni, jafnvel þó svo að undanþága Noregs sé enn á umræðustigi. Þetta er tryggt þannig að Noregur leggur ávallt áherslu á að ríkið er reiðubúið að halda áfram með það kerfi að ef erlendir bankar starfa á norskum markaði þurfa þeir að vera aðilar að norska tryggingakerfinu fyrir mismun á milli norska kerfisins og því kerfi sem gildir í upprunalandi, svokallaður „áfyllingaaðgangur“. Þar að auki höfum við lagt áherslu á að við erum tilbúin til að viðhalda útflutningsbanni á norska banka, þannig að þeir geti ekki boðið sparifjáreigendum erlendis hærri ábyrgð. Ríkisstjórnin mun halda áfram að vinna að þessu máli af fullum krafti“

Nú vildi ég fá að vita, virðulegi forseti, hver skoðun hv. þingmanns, formanns utanríkismálanefndar, er á þessum vinnubrögðum Noregs. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður telur að við Íslendingar ættum að tileinka okkur? Norðmenn meta það þannig að hagsmunir þeirra fari ekki saman við þessa tilskipun. Að vísu eru þeir með allt annan vanda en við Íslendingar hvað þessa tilskipun varðar sem er annað mál, þ.e. þeir eiga svo mikið af peningum að það er til tómra vandræða, við héldum um tíma að við værum þannig líka, svona næstum því. Þeir taka þetta ekki upp í EES-samninginn og vinna skipulega að því að koma áherslum sínum að í nýrri tilskipun sem nú er á vettvangi Evrópuþingsins, eins og Jonas Gahr Støre segir: „Við erum að vinna að því að fá inn nýjan texta þar sem Noregi verði heimilt að viðhalda sömu stöðu sem hefur verið óbreytt frá 1996.“

Þetta er stórmál. Burt séð frá því hvað mönnum finnst um efni máls er mín skoðun sú að þegar við teljum að hagsmunir okkar í stórum málum fari þvert gegn tilskipunum þá eigum við að vinna að því að fá einhverja úrlausn, sama hvað hún heitir, svo að við getum sætt okkur við hana. Það eru tæki til þess. Auðvitað þekkja það allir að best er að koma að þessu þegar verið er að undirbúa tilskipunina. Því miður hefur það ekki verið gert á vettvangi viðskiptamála, sem er mjög slæmt fyrir Ísland. En ef menn hafa ekki gætt að því, eins og komið hefur á daginn í tilfelli Íslands, að koma að þessu þegar heppilegast er tel ég að við eigum að gera eins og Norðmenn, hinkra með að samþykkja þetta í EES-samninginn. Sú tilskipun sem hæstv. ríkisstjórn vill afgreiða er ekki komin í EES-samninginn og flest bendir til þess að hún fari ekki í EES-samninginn, vegna þess að verið er að semja nýja tilskipun. Norðmenn eru á fleygiferð, eins og segir hér: „Ríkisstjórn Noregs mun halda áfram að vinna að þessu mál af fullum krafti.“ Ég hef rætt mjög lengi um það einstaka mál sem nú er á dagskrá en það hefur verið alveg skýrt af hálfu stjórnarliða að þeir telja að engu sé hægt að breyta og við eigum bara að kyngja þessu og klára.

Ég vil fá að heyra, virðulegi forseti, sjónarmið hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hvað þetta varðar. Telur hann að þegar um mikla hagsmuni er að tefla eigi Íslendingar að beita sér fyrir því að fá einhvers konar úrlausn, þ.e. á tilskipunum sem fara þvert gegn hagsmunum okkar? Það er grundvallaratriði, það er algjört grundvallaratriði. Það er alveg augljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki metið það þannig. Ef hv. þingmaður telur að það eigi ekki að gera þetta, það eigi ekki að fara norsku leiðina, ekki beita sér fyrir hagsmunum Íslands á sama hátt og Noregur beitir sér fyrir hagsmunum Noregs, vildi ég fá að vita á hverju hv. þingmaður byggir þá skoðun sína.

Ég þekki það, frá því ég var í ríkisstjórn, að það er hægt að tala við fólk í Evrópu, það er sko alveg magnað, það getur verið ágætlega viðræðugott. Ég talaði á sínum tíma við tvo framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um lyfjamál út af haftamarkaði Evrópusambandsins í lyfjum sem við þurftum að innleiða — þó svo að við höfum örugglega ekki farið nógu vel yfir málin þegar við innleiddum það í íslensk lög. En við þurftum að innleiða þessar tilskipanir þegar við gengum inn í EES. Er það, held ég, eina dæmi þess — kannski ekki eina dæmið, við komum líka á fót ýmsum tæknilegum viðskiptahindrunum sem beindust frekar að því að vernda Evrópu gegn framleiðslu í öðrum heimsálfum. En þetta var hins vegar hrein og klár haftaverslun sem við komum á laggirnar í lyfjamálum sem leiddi af sér að lyfjaverð var hér í hæstu hæðum en í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar náðist sem betur fer að lækka lyfjaverð verulega. Var það meðal annars gert vegna þess að við áttum áðurnefnd samskipti við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins þar sem við bárum upp þessi mál. Þeir þekktu þetta vandamál, þ.e. að litlu markaðssvæðin báru mjög skarðan hlut frá borði vegna haftaverslunar í lyfjamálum. Ég veit ekki hver afdrif þess máls urðu en þegar ég var í ráðuneytinu var settur á stofn hópur á vettvangi Evrópusambandsins sem í áttu sæti fulltrúar Íslands þar sem farið var sérstaklega yfir það sem sneri að litlu markaðssvæðunum með það að markmiði að reyna að opna markaðinn og lækka lyfjaverðið.

Nú veit ég ekki hvort þetta er eina dæmið, en ég mundi ætla að þeir aðilar sem hvað harðastir eru í því að ganga í Evrópusambandið, og reyna að telja öðrum trú um að almennt sé tekið tillit til stórra hagsmuna hvers ríkis, ættu að vera fremstir í flokki í því að nýta þau tæki sem við höfum innan EES-samningsins til að gæta hagsmuna Íslendinga. En því virðist vera öfugt farið með þessa ríkisstjórn — stóri flokkurinn hefur þá einörðu afstöðu að ganga í Evrópusambandið og ekki er hægt að túlka það á annan hátt en svo að mjög margir þingmenn Vinstri grænna, þar á meðal hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, daðri nú við þá hugmynd. En það er kannski aukaatriði. Aðalatriðið er hins vegar það, og ég treysti því að hv. þingmaður komi í það minnsta í andsvar ef ekki ræðu og svari því fyrir sitt leyti, hvort Ísland eigi að nota sömu aðferðir og Noregur þegar um mikla hagsmuni er að ræða fyrir Ísland. Hv. þingmaður er formaður utanríkismálanefndar og því vega orð hans og skoðanir þyngra en þegar um flesta aðra þingmenn er að ræða.

Hæstv. utanríkisráðherra er ekki í salnum núna. Hann tók þátt í umræðum áðan. Ég ætla að reyna að skiptast á skoðunum við hann um þetta málefni seinna í dag vegna þess að þetta er grundvallaratriði. Ég hef ekki fengið nein sérstök rök fyrir því að þessi einstaka tilskipun hafi einhverja hættu í för með sér, og vonandi er það ekki. Mér finnst hins vegar miður hve lítið er um hana fjallað efnislega í nefndaráliti og hefði talið betra að ræða þetta, og þá ekki bara um efni máls heldur líka um vinnubrögð í tengslum við þessar tilskipanir. Ég tel það reyndar vera ágætiskost að hér eru hv. þingmenn komnir til að fara nákvæmlega yfir það. Mér sýnist við hafa góðan tíma til að gera það í dag. Þetta er stórmál, virðulegi forseti, sem er mjög mikilvægt fyrir hv. þingmenn að ræða ítarlega.

Ég spyr hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Telur hann að Ísland eigi að beita norsku aðferðunum til að gæta hagsmuna sinna? Ef ekki, hvers vegna?