139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[13:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni fór hv. þingmaður í gegnum mjög margt og lýsti m.a. áhyggjum sínum af því að ef til aðildar kæmi yrði skortur á tengslum við fulltrúana sem yrðu kosnir fyrir hönd Íslands á Evrópuþingið. Mér hefur skilist að Evrópusambandið, og Evrópuþingið sérstaklega, leggi mjög mikið upp úr því að þingmenn hafi starfsstöð í heimalandi sínu en fari síðan og sitji þingfundi í Brussel eða Strassborg. Skrifstofa og starfsfólk þingmanna yrðu þá staðsett hér og þá ætti að vera tiltölulega auðveldur aðgangur fyrir Íslendinga að fulltrúum sínum. Áhyggjur mínar, svo ég ítreki það, hafa því kannski ekki snúist um að við gætum ekki komið sjónarmiðum okkar á framfæri á Evrópuþinginu. Talað er um að við mundum fá sjö þingmenn og ef við mundum kjósa tóma framsóknarmenn held ég að okkur mundi ganga alveg ágætlega af því mér skilst að flokkagrúppa okkar á Evrópuþinginu hafi ágætisburði þar þó þeir séu ekki stærstir.

Ég hef mun meiri áhyggjur af öllu utanumhaldi um samstarfið, aðkomu að framkvæmdastjórninni og samskiptum framkvæmdarvaldsins við Evrópusambandið. Ég held að reynslan af EES-samningnum sýni greinilega að mjög erfitt er fyrir 300 þús. manna þjóð að vera fullgildur þátttakandi í svo stóru og víðtæku og flóknu samstarfi eins og Evrópusambandið er. Einfalt mál eins og t.d. hvernig eigi að orða ársreikninga hjá skráðum félögum, sem við höfum fjallað um í viðskiptanefnd, sýnir að við eigum mjög erfitt með þetta. Annað sem ég mundi kannski telja tiltölulega einfalt mál, eins og t.d. túlkaþjónusta; það mun taka okkur mörg ár að byggja upp þá þekkingu og fá nægilega marga (Forseti hringir.) sem gætu túlkað í þessu samstarfi. Að við tölum ekki um alla hina sérfræðiþekkinguna (Forseti hringir.) sem við þurfum á að halda.