139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[13:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er af nógu að taka til að hafa áhyggjur af ef við mundum detta inn í Evrópusambandið. Mín upplifun er reyndar ekki sú að starfsstöð Evrópuþingmanna sé í heimalandi þeirra. Ég hef heimsótt nokkra Evrópuþingmenn og þeir sem ég hef hitt hafa starfsemi sína í Brussel og alla aðstöðu þar, staðlaða skrifstofu með sturtum og öllu slíku, því fólk þarf að hanga þar oft löngum stundum. Hins vegar eru þeir auðvitað í samskiptum við heimalandið og það er náttúrlega misjafnlega auðvelt eftir því um hversu langan veg er að fara. Margir reyna t.d. að vera um helgar í heimalandinu en starfa í Brussel yfir vikuna. Það er allur gangur á því.

Þetta er kannski ekki stærsta málið. Stærsta málið fyrir Ísland er einfaldlega að við þurfum að forgangsraða þegar kemur að utanríkismálum og það höfum við ekki gert. Við munum aldrei geta tekið þátt í öllu því samstarfi sem okkur stendur til boða. Því fer svo víðsfjarri að við getum náð að fara yfir allt sem snýr að Evrópusambandinu, verðum við þar inni. Það má enda færa full rök fyrir því, ef hugsað er um hagsmuni Íslands, að ekki er fyrirhafnarinnar virði eða kostnaðarins virði að vera virkir þátttakendur í stórum hluta af því sem þar fer fram. Við þurfum að hafa hóflega utanríkisþjónustu sem er hins vegar skilvirk og góð. Þar þurfum við að forgangsraða. Við höfum lagt allt of mikla áherslu á Evrópumálin án þess þó að hafa nógu skýran fókus á þau. Ég get rætt það seinna.

Það veldur mér miklum vonbrigðum, virðulegi forseti, að ég get ekki séð að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ætli að koma hér (Forseti hringir.) til að svara fyrirspurnum mínum og mun ég fara aftur á mælendaskrá til að fylgja því eftir.