139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

aðgerðir fyrir skuldug heimili.

[13:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Að hugsa sér að hæstv. forsætisráðherra skuli koma hingað og neita því að verðbólga hafi aukist, að vextir séu háir, gengi krónunnar hafi lækkað, að bensín hækki, olíugjald hækki, atvinnuleysi sé mikið, fólk flýi land og að matvara hafi hækkað. Hæstv. forsætisráðherra sagði einfaldlega að sú upptalning sem ég fór með væri röng. (Gripið fram í.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðir eru það sem hæstv. ráðherra telur hafa skipt svo miklu fyrir heimilin í landinu?

Svo er annað sem er kannski fyrst og fremst það sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í: Gildir ekki lengur sú yfirlýsing sem ráðherrann gaf um að ekki væri hægt að gera meira fyrir heimilin í landinu?

Nú hefur Landsbankinn sýnt að þar er svigrúm, svigrúm sem við mörg hver höfum iðulega bent á. Ætlar forsætisráðherra að beita sér fyrir því að með sama hætti komi aðrar fjármálastofnanir inn í, (Forseti hringir.) lífeyrissjóðir og ríkissjóður sem eigandi Íbúðalánasjóðs?