139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ríkisframlag til bankanna.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ýjað að því, eins og maður hefur heyrt undanfarið, að við göngum erinda kröfuhafa. Það er algjör fjarstæða og samsæriskenning sem á sér enga stoð. (Gripið fram í.) Hverjir töpuðu mest á hruninu sem rekja má meðal annars til aðgerða sjálfstæðismanna og framsóknarmanna? Það voru kröfuhafarnir sem töpuðu 7 þús. milljörðum kr. Við teljum, og það eru margir sem taka undir með okkur þó að það séu ekki einstaka sjálfstæðismenn hér inni, að vel hafi verið staðið að endurreisn bankanna, m.a. með því að kröfuhafar yfirtóku tvo banka og við spöruðum verulega fjármuni á því sem meðal annars nýtast okkur nú til að við þurfum ekki að ganga hart (TÞH: 406 milljarðar króna.) að velferðarkerfinu. Það munar um þá 46 milljarða sem við spörum í vaxtagreiðslur með því að hafa farið þessa leið og sparað 250 milljarða. Lausafjárfyrirgreiðslan sem Seðlabankinn hefur (Forseti hringir.) veitt er bara tímabundið lán gegn veði í öruggum eignum og það er ekki hægt að leggja það við einhver framlög frá ríkissjóði eins og hv. þingmaður er að gera.