139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

skuldaniðurfærsla hjá Landsbankanum og fleiri lánveitendum.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan: Ég fagna því að Landsbankinn hafi séð sér fært að fara þessa leið. Um spurningu hv. þingmanns, um það hvort ég ætli að beita mér fyrir því að einkabankarnir tveir fari sömu leið, tel ég eðlilegast að þeir skoði það sjálfir hjá sér hvort þeir treysti sér til að fara þessa sömu leið eða gera eitthvað meira fyrir skuldug heimili en þeir hafa þegar gert, frekar en við förum að beita einhverju handafli á þessa einkabanka. Eða er hv. þingmaður að biðja um að efnahagsráðherra fari að fyrirskipa einkabönkunum að fara þessa leið?

Ég vil segja það varðandi Íbúðalánasjóð að hann stendur ekki vel. Hann fór eins langt og hann gat þegar við fórum í þessar aðgerðir, svokallaða 110%-leið, sem ég held að sé að skila mörgum mjög miklu. Ég held að það sé tæpast á hann leggjandi að fara lengra í því máli. Við þurfum að láta verulegar fjárhæðir inn í þann banka til að styrkja eiginfjárstöðu hans og verði lengra gengið í því efni kemur það niður á velferðarkerfinu og þá kannski því sama fólki og býr við erfiðleika út af skuldastöðu heimilanna.

Ég vil hvetja fólk til að nýta þau úrræði sem eru fyrir hendi. Ég vil segja það enn og aftur að greiðsluaðlögunin hefur skilað fólki verulega miklu. Það eru 2.400 manns sem hafa sótt um greiðsluaðlögun og 600 hafa fengið úrlausn sinna mála. Verið er að vinna úr 1.900 umsóknum og allur kraftur og hraði hefur verið settur í það að afgreiða þau mál eins og hægt er. Þar hefur verið um verulegar afskriftir að ræða og ég þekki margt fólk sem taldi sig vera alveg komið á ystu nöf og þurfa að selja íbúðir sínar á uppboði en þegar því var bent á greiðsluaðlögunina og það fór í hana bjargaði það heimilunum. Ég vil því fyrst og fremst hvetja fólk til að nýta þau úrræði sem eru fyrir hendi núna. Við munum auðvitað fylgjast með stöðu mála og (Forseti hringir.) stöðu skuldugra heimila eins og við höfum gert hingað til.