139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[14:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svo þegar verið er að endurreikna lán, með þeim hætti sem Hæstiréttur kallar á að gert sé í kjölfar þess að gengistrygging var dæmd ólögmæt, að gera þarf nýja vaxtaútreikninga vegna þess að verðtryggingin og vextirnir sem henni fylgdu standast ekki ákvæði laga að áliti dómstólsins. Þetta er ekki fyrir leikmenn að glöggva sig á og það var það sem ég var að vísa til í þessu viðtali, því þó að ég sé lögfræðimenntaður er ég leikmaður þegar kemur að útreikningi.

Eins og hv. þingmaður gat um voru sett lög í desember og þau kváðu á um endurreikning á tilteknum forsendum. Umboðsmanni skuldara var falið að hafa eftirlit með þeim endurreikningi og umboðsmaður skuldara hefur verið að fara yfir endurreikninga bankanna að undanförnu. Ég mun bíða eftir niðurstöðum umboðsmanns skuldara um mat á þeim útreikningum. Ég átti von á því að embætti umboðsmanns skuldara ætlaði að kynna niðurstöður sínar í dag en það er ekkert leyndarmál að þar hefur ekki orðið vart stórfelldra frávika frá því sem mælt er fyrir um í lögunum.

Það eru um 80 þúsund lán sem þarf að endurreikna í kjölfar gengislánadómanna og þessarar lagasetningar og athugasemdir hlaupa á fáeinum hundruðum, sem borist hafa umboðsmanni skuldara. Í flestum tilvikum lúta þær að því hvort réttlætanlegt sé að fara þá leið sem Hæstiréttur segir að eigi að fara. Í fæstum tilvikum lúta þær athugasemdir að útreikningunum sjálfum. Það er því mikill misskilningur að veruleg vanhöld séu á því að útreikningarnir séu réttir (Forseti hringir.) miðað við það sem umboðsmaður skuldara hefur verið að sjá í sínum athugunum.