139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[14:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það tók ráðuneyti hans tvo mánuði að gefa út reglugerð frá því að við samþykktum lög sem heimiluðu umboðsmanni skuldara að hafa þetta eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækjanna. Ég hef nú í tvo mánuði beðið eftir svari frá hæstv. ráðherra við þeirri spurningu hvers vegna þetta hafi tekið svona langan tíma. Ég hef líka beðið um svör við þeirri spurningu hvers vegna ekki hafi verið gefnar út skýrar leiðbeiningar um það hvernig skilja ætti lögin. Ég bíð enn eftir svörum við því.

Warren Buffet, einn af þekktustu fjárfestum í heimi, einn af ríkustu mönnum í heimi, segir að hann fjárfesti aldrei í neinu sem hann skilji ekki. Ég held að það væri líka ágætisregla fyrir okkur að hafa í huga að samþykkja ekki löggjöf á Alþingi þegar meira að segja sjálfur flutningsmaður málsins, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, viðurkennir, eins og hann gerði í morgun, að hann skilji ekki málið. (Forseti hringir.) Löggjöf okkar á að vera þannig úr garði gerð að við og almenningur getum skilið hvað við erum að gera.