139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það að vera þingmaður á Alþingi Íslendinga er ábyrgðarmikið starf. Við sem tímabundið höfum valist til þessara starfa tökumst á hendur það hlutverk að stýra lagasetningu fyrir allan almenning í landinu. Það felur í sér þá ábyrgð að huga að velferð, samspili ólíkra hagsmuna, samhengi ákvarðana og lagabreytinga við gildandi lög og reglur o.s.frv. Fyrst og síðast ber okkur þó samkvæmt minni hyggju að huga að og standa vörð um almannahagsmuni og gildi eins og jafnræði íbúa þessa lands, mannréttindi og lýðræði.

Það mál sem hér er til umfjöllunar snýst ekki síst um þessi grunngildi stjórnmálabaráttunnar, mannréttindi, jafnræði, lýðræði, samábyrgð Hér í dag ljúkum við umfjöllun þingsins og göngum til atkvæða um frumvarp sem annars vegar festir í lög stöðu íslensku tungunnar sem þjóðtungu Íslendinga og hins vegar að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta svo sem heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Í frumvarpinu er staðfest að íslenskan er sameiginlegt tungumál allra þeirra sem hér búa, hvort sem þeir eru fæddir í landinu eða aðfluttir, með skilgreindum rétti allra til að læra og nota íslenskuna. Þessi sameiginlegi strengur okkar allra er forsendan fyrir því að við sköpum hér samfélag raunverulegs lýðræðis, samfélag þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að láta drauma sína rætast. Auðvitað verður slíkt samfélag ekki til eins og hendi sé veifað. Við munum alltaf finna tilvik sem draga fram að enn er langur vegur að markinu. Ég get þó með stolti haldið því fram að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er mikilvægur áfangi á leið til samfélags sem byggir á jöfnuði, mannréttindum og lýðræði.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka voru veitt fyrirheit um að ríkisstjórnin mundi með hagsmunaaðilum vinna að undirbúningi að viðurkenningu táknmálsins á þessu kjörtímabili. Tekin yrði ákvörðun um það með hvaða hætti táknmálið yrði viðurkennt og hvað fælist í slíkri viðurkenningu. Það er því sérstakt fagnaðarefni að nú þegar kjörtímabilið er einungis hálfnað skuli frumvarp þessa efnis vera komið á leiðarenda hér í þinginu og tækt til afgreiðslu.

Forsaga málsins er hins vegar löng og nær áratugi aftur í tímann. Ég vil sérstaklega þakka þeim frjálsu félagasamtökum sem hafa lagt þessu mikla mannréttindamáli lið árum og reyndar áratugum saman, ekki síst Félagi heyrnarlausra og Heyrnarhjálp sem hafa barist meira en hálfa öld fyrir réttarbótum skjólstæðinga sinna.

Ég vil líka þakka þingflokkum stjórnarandstöðunnar fyrir þeirra mikilvæga stuðning við að koma þessu máli fljótt og vel í gegnum þingið. Þetta mál tók jákvæðum breytingum í hv. menntamálanefnd, við nýttum m.a. tækifærið til að lögfesta í fyrsta sinn stöðu punktaletursins sem íslensks ritmáls blindra og, sem ég tel afar mikilvægt, við treystum rétt nánustu aðstandenda þeirra sem vilja nota táknmálið sem sitt fyrsta mál til að læra og nota táknmál en það er lykilatriði ef táknmálið á raunverulega að nýtast sem tæki til félagslegra samskipta, sem er grunnurinn að fullri og mannsæmandi þátttöku í samfélagi okkar. Ég vil þakka fyrir það að full samstaða var í menntamálanefnd um þetta mál. Fulltrúar allra flokka lögðust á eitt við að gera mikilvægt mál enn betra.

Það er í tísku að tala niður þingið og einstakir þingmenn gera það jafnvel sjálfir í ræðustól Alþingis, en þetta mál sýnir að þegar á reynir er þingmönnum þessa lands vel treystandi til að standa saman um að ryðja braut brýnum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.