139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[14:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkar ánægjulegt að við séum að fara að samþykkja frumvarp þess efnis að íslenska sé og verði þjóðtunga Íslendinga. Það er líka að mínu mati sérstaklega mikilvægt að við séum að leggja hér táknmál að jöfnu við talað mál. Ég vil bara ítreka það og raunar fara fram á það við hv. formann menntamálanefndar, Skúla Helgason, að hann beiti sér af miklum krafti þegar við förum í fjárlagagerðina í haust við að tryggja að fjárveitingar fari í þetta verkefni og að allir sem þurfa og eiga samkvæmt þessum lögum rétt á því að læra táknmál, þeir sem eru heyrnarlausir, hafi möguleika á því að fá þá kennslu og við getum stutt sveitarfélögin til að veita þeim þessa kennslu og nánustu aðstandendum þeirra.

Ég veit að ég mun fá gott og jákvætt svar frá hv. formanni nefndarinnar en þetta er mjög mikilvægt. Ég heiti raunar á alla þingmenn sem hér sitja að við beitum okkur fyrir nákvæmlega þessu í haust þegar við förum í fjárlagagerðina.